Svæðisfundur Rauða kross deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum

27. okt. 2008

Svæðisfundur deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum var haldinn síðustu helgi í húsnæði Hveragerðisdeildar. Hófst fundurinn með því að formaður svæðisráðs Eiríkur Jóhannsson flutti skýrslu.

Stærsta verkefni svæðissamstarfsins er sem fyrr stuðningur við vinadeildina í Lower River í Gambíu. Á landsvísu er eitt stærsta verkefnið stuðningur við sumarbúðir fatlaðra að Löngumýri í Skagafirði. Auk þess eru haldin fjölbreytt námskeið. Fulltrúar deilda sögðu frá starfsemi og verkefnum sinna deilda sem eru bæði mörg og fjölbreytt.

Gestur fundarins var Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins. Hún kynnti nýjar siðareglur félagsins. Einnig sagði Anna fundarmönnum frá starfsemi Fatasöfnunar, en breytingar hafa orðið á þeirri starfsemi sem nýlega flutti í nýtt húsnæði að Skútuvogi 1 í Reykjavík.

Nokkrar breytingar urðu á svæðisráði. Deildir skiptast á formennsku og næsta ár verður Árni Þorgilsson formaður Rangárvallasýsludeildar.

Að loknum fundi var boðið uppá skoðunarferðir um nágrennið og gat fólk valið á milli þess að fara í gönguferð frá Ölkelduhálsi og niður um dalina ofan Hveragerðis þar sem gufan rýkur á víð og dreif uppúr jörðinni eða skoðunarferð í rútu undir leiðsögn Björns Pálssonar. Veðrið lék við þátttakendur í þessum skemmtilegu skoðunarferðum um slóðir sem fæstir höfðu farið um áður.

Hluti göngugarpa í fallegu haustveðrinu.