Börn og ungmenni vinna með Rauða krossinum úr reynslu eftir jarðskjálfta

30. okt. 2008

Oft tekur langan tíma að vinna úr áföllum eftir náttúruhamfarir og eru börn sérstaklega viðkvæm fyrir því þegar öryggi í umhverfi þeirra er ógnað. Rauði krossinn hefur því unnið að fræðsluverkefni í samstarfi við kennara og skólayfirvöld á Suðurlandi sem gengur út á eftirfylgd og sálrænan stuðning í kjölfar jarðskjálftans sem reið þar yfir í lok maí.

Fræðsla Rauða krossins stendur í eina viku og er fyrir börn og ungmenni í fimm grunnskólum á svæðinu og framhaldsskólanema í Fjölbrautaskólanum á Suðurlandi. Einnig er boðið upp á sérstaka fræðslu fyrir starfsfólk allra leikskóla á svæðinu, dagforeldra og forsjáraðila barna.

Verkefnið hófst í Sunnulækjarskóla þann 28. október og stendur yfir í viku. Hinir skólarnir sem njóta góðs af verkefninu eru Vallaskóli, Barnaskóla Eyrarbakka og Stokkseyrar, og grunnskólarnir í Þorlákshöfn og Hveragerði.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði strax eftir stóra skjálftann í vor þar sem Rauði krossinn veitti íbúum á svæðinu áfallahjálp og sálrænan stuðning. Það fékk svo brautargengi þegar styrktarsjóður Kiwanis á Íslandi lagði verkefninu til eina milljón króna. Kiwanismenn afhentu styrkinn í Sunnulækjarskóla á Selfossi nú á þriðjudag.

Elín Jónasdóttir sálfræðingur er verkefnisstjóri átaksins. Elín hefur unnið um árabil að verkefnum Rauða krossins í sálrænum stuðningi bæði hér innanlands og sem sendifulltrúi á hamfarasvæðum erlendis.