Fjöldahjálparstjóranámskeið

13. nóv. 2008

Á dögunum var haldið námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra í Grindavík,  en nokkur tími er síðan slíkt námskeið var haldið hjá deildinni. Á námskeiðinu er meðal annars farið yfir skipulag almannavarna og hver þáttur Rauða krossins er í þeim, fyrirlestur um fjöldahjálp, auk þess sem æfð er skráning og opnum fjöldahjálparstöðvar.

Námskeiðið var haldið í húsnæði Grunnskólans, sem er skilgreind fjöldahjálparstöð og var vel sótt af heimamönnum.  Þátttakendur voru áhugasamir og tóku virkan þátt í verkefnum og æfingum sem lagðar voru fyrir. Í tengslum við námskeiðið hefur verið unnið að uppfærslu neyðarvarnaáætlunar Grindavíkurdeildar og er því verki nú að mestu lokið.

Á hættu- og neyðartímum opna og starfrækja deildir Rauða Kross Íslands fjöldahjálparstöðvar til að taka á móti fólki sem þarf að yfirgefa heimili sín sökum alvarlegra atburða eins og náttúruhamfara. Þar fer fram skráning sem miðar að því að sameina fjölskyldur og fólk fær fæði, klæði, upplýsingar og nauðsynlega aðhlynningu. Í dag eru 164 fjöldahjálparstöðvar á Íslandi sem dreifast um landsbyggðina og þar standa hundruð karla og kvenna vaktina, tilbúin að láta til sín taka þegar kallið kemur.