Hvergerðingar gefa föt til Hvíta Rússlands

17. jan. 2012

Í verkefni Rauða krossins „Föt sem framlag“ er fötum safnað og pakkað handa fátækum börnum í Hvíta Rússlandi. En þar í landi er mikil fátækt einkum til sveita. Rauða krossdeildin í Hveragerði tekur þátt í þessu verkefni en þar var myndaður hópur vaskra kvenna undir stjórn Laufeyjar S. Valdimarsdóttur og hafa þær verið duglegar að prjóna, sauma, safna og pakka fötum. Var meðal annars farið í heimsókn í Grunnskólann þar sem fimmta bekk var kynnt þetta verkefni. Nokkrum dögum síðar kom bekkurinn í heimsókn til deildarinnar færandi ótrúlega mikið af fötum sem þau vildu gefa til barna í Hvíta Rússlandi.

Rauði kross íslands hefur um árabil sent föt til Afríku en vegna beiðni frá Hvíta Rússlandi var ákveðið að bæta því landi við. Verkefnið hefur gengið mjög vel. Hvíta Rússland er um helmingi stærra en Ísland og íbúar eru rétt tæplega 10 milljónir. Fjórðungur býr á landsbyggðinni víða við þröngan kost og í lélegum húsum. Veturinn er kaldur og snjóþungur en oft er snjór og frost í 125 daga á ári.

Í febrúar 2011 var sendur stór gámur fullur af fötum til Hvíta Rússlands sem voru vel þegin.

Á meðfylgjandi mynd má sjá nemendur í fimmta bekk Grunnskólans í Hveragerði þegar þeir heimsóttu Rauða krossinn með fatapokana.

Hveragerðisdeild Rauða kross Íslands vill þakka nemendum fimmta bekkjar þeirra framlag, Hvergerðingum frábærar undirtektir og ítrekar að deildin er öllum opin og að margar hendur vinna létt verk.

Örn Guðmundsson, formaður