Óvænt hjálp

21. apr. 2009

Það hljóp heldur betur á snærið hjá mér, starfsmanni Grindavíkurdeildar RKÍ, á dögunum. Ég hafði rétt hafist handa við að losa fatagáminn þegar hópur leikskólabarna birtist fyrir hornið á Rauðakrosshúsinu. Þarna var kominn Stjörnuhópur frá Laut og forvitnin skein úr augum þeirra við að sjá mig bogra hálf inn í gámnum. Þegar ég útskýrði fyrir þeim að hér væri hægt að koma með fatnað og dót sem þau væru hætt að nota og það síðan gefið til fátækra barna í útlöndum stóð nú heldur betur ekki á hjálpinni. Ég mátti hafa mig alla við að rétta þeim poka sem þau báru inn í hús fyrir mig, meira segja stóru svörtu pokarnir, sem ég hafði hugsað mér að setja til hliðar svo ég gæti tekið þá því ég taldi þá of þunga, voru líka teknir því þessi börn kunna jú ýmislegt fyrir sér í samvinnu ... þau voru þá bara 3 eða jafnvel 4 með einn poka. Allt var komið inn í hús einn tveir og bang og ég þurfti bara loka og læsa gámnum .... heppin ég.

Þetta var óvænt hjálp frá dugmiklum sjálfboðaliðum sem veitt var af miklum ákafa og mikilli gleði. Sjálf hafði ég mikla ánægju af þessari stuttu samverustund og er börnunum í Stjörnuhópi innilega þakklát fyrir hjálpina.