Guðfinna Bogadóttir

21. apr. 2009

Guðfinna Bogadóttir eða Gugga eins og hún er alltaf kölluð, sagði nýverið af sér formennsku stjórnar Grindavíkurdeildar Rauða kross Íslands. Gugga kom til starfa hjá Grindavíkurdeild árið 1992 sem ritari stjórnar. Á þessum tíma snérist starfið fyrst og fremst um rekstur sjúkrabifreiðarinnar og byggingu húsnæðisins sem nú hýsir sjúkrabifreiðina og starfsemi Grindavíkurdeildar RKÍ. Árið 2000 tók Gugga við formennsku deildarinnar og beitti sér fyrir að taka inn „mýkri“ verkefni í starfsemina. Hún stuðlaði að því að kennd væru námskeiðin „Börn og umhverfi“ (barnfóstrunámskeiðin) og skyndihjálparnámskeið. Deildin tók upp þá hefð að gefa 1. bekkingum reiðhjólahjálma og að bjóða elstu börnum leikskólanna í heimsókn, gefa þeim endurskinsborða og ís, horfa á stutt myndband með Hjálpfúsa og skoða sjúkrabifreiðina. Jólakortagerð 7. bekkinga og jólaglaðningur til eldri borgara í Víðihlíð er orðin hefð og heimsóknarvinaverkefnið ásamt handvinnuhópnum eru verkefni sem komust á laggirnar í tíð formennsku Guggu. Aukið samstarf hefur verið með öðrum líknarfélögum en Gugga vildi gjarnan sjá meira samstarf þarna á milli í framtíðinni. Ýmis fleiri verkefni hafa komið til eins og fatasöfnunardagur, bangsar gefnir í sjúkrabifreið og ýmis önnur verkefni sem snúa að mannleglegu hliðinni.

 

Haustið 2008 lét Gugga gamlan draum rætast og setti upp blómabúðina Blómakot þar sem hún hefur til sölu ýmsa gjafavöru ásamt afskornum blómum en það var fyrst og fremst sköpunarþörfin sem rak hana af stað og nú útbýr hún blómaskreytingar af stakri prýði fyrir hin ýmsu tilefni. Gugga hefur þá framtíðarsýn að geta haft fjölbreytt handverk til sölu og sýnis hjá sér ásamt því hefðbunda sem fyrir er.

 

Auk þess að reka blómabúð og vinna í grunnskólanum er Gugga í kirkjukórnum og hefur mikla unun af söngnum. Það var því orðin ansi þétt setin dagskráin hjá henni og því ákvað hún að láta af formennsku fyrir Grindavíkurdeild eftir rúm 15 ár í stjórnarsetu.

 

Gugga segir að þessi þáttur í lífi hennar hafi verið henni ómetanlega lærdómsríkur og gefið henni verkfæri í hendurnar sem nýtast henni ævilangt.