1. bekkingar fá reiðhjólahjálma

22. apr. 2009

Það hefur verið árviss viðburður hjá Grindavíkurdeild RKÍ að færa 1. bekkingum grunnskóla Grindavíkur reiðhjólahjálma að gjöf á vorin og á því var engin breyting í ár. Miðvikudaginn 22. apríl, síðasta vetrardag, mættu allir 1. bekkingar í sal grunnskólans og veittu viðtöku reiðhjólahjálmum að gjöf frá deildinni. Ágústa Gísladóttir, formaður og Rósa Halldórsdóttir, starfsmaður Grindavíkurdeildar, sáu um afhendinguna og var greinilegt að þetta var velþegin gjöf. Það var líka ánægjulegt að heyra hvað börnin þekktu vel til Rauða krossins og hvað hann stendur fyrir. Trúlega á Hjálpfús og heimsókn þeirra til deildarinnar fyrir ári síðan stóran þátt í því og greinilegt að þau hafa tekið vel eftir.

Hjálmagjöfin er þáttur í forvarnarstarfi deildarinnar og stutt kynning á starfi og hugsjónum Rauða krossins þar sem hjálpsemi og varnir gegn slysum eru í fyrirrúmi.

Um leið og við hjá Grindavíkurdeild RKÍ óskum ykkur gleðilegs sumars biðjum við ykkur um að muna eftir hjálmunum þegar þið stigið á bak reiðhjólanna því þeir verja mikilvægasta líffærið okkar - heilann.

Hjólum örugg inn í sumarið !