Námskeiðin Börn og umhverfi eru að hefjast

30. apr. 2009

Námskeiðin Börn og umhverfi verða í boði hjá flestum deildum Rauða krossins að þessu sinni eins og mörg undanfarin ár. Námskeiðin eru fyrir börn 11 ára og eldri sem gæta yngri barna. Farið er í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Einnig er lögð áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu.

Námskeiðin eru 16 kennslustundir og í lokin fá þátttakendur litla skyndihjálpartösku að gjöf og viðurkenningarskjal til staðfestingar um þátttöku.

Hjá Grindavíkurdeild stendur nú yfir kennsla. Að þessu sinni eru eingöngu stúlkur sem sækja námskeiðið, 14 talsins og leiðbeinendur eru þær Laufey Birgisdóttir og Guðfinna Bogadóttir. Þær eru sérlega ánægðar með hópinn og segja virkilega gaman að sjá og finna hve áhugasamar og fróðleiksfúsar stelpurnar eru – ákveðnar í því að standa sig vel í því ábyrgðarstarfi sem væntanlega býður þeirra í sumar.

Það er engin vafi á því að þessi námskeið geta gert gæfumuninn varðandi réttu viðbrögðin í skyndihjálp og varðandi það hvort viðkomandi fær starf eða ekki við barnagæslu. Námskeiðin nýtast þátttakendum líka dagsdaglega í lífinu heima fyrir, innan stórfjölskyldunnar og meðal vina.

Nánar er hægt að sjá dagskrá námskeiðanna með því að smella hér.