Flugverndaræfing á Keflavíkurflugvelli 18. apríl 2009

7. maí 2009

Hér þurfti að binda um sár.

Laugardaginn 18. apríl var haldin flugverndaræfing á Keflavíkurflugvelli. 18 sjálfboðaliðar frá Suðurnesja- og Grindavíkurdeild voru kallaðir til starfa á flugvellinum en auk þess störfuðu fulltrúar landsskrifstofu í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð. Þá var Hjálparsíminn 1717 einnig virkjaður. Líkt var eftir sprengjuhótun um borð í flugvél sem lauk síðan með slysi eftir lendingu.

Fjöldahjálparstjórar Grindavíkur- og Suðurnesjadeildar hafa á síðustu mánuðum fengið ýmsa fræðslu og þjálfun vegna þeirra verkefna sem bíða þegar bregðast þarf við neyðarástandi. Meðal þeirrar fræðslu sem þeir hafa fengið eru fjöldahjálparstjóranámskeið, námskeið í sálrænum stuðningi, fræðsla í notkun á Tetra talstöðvum og fræðsla um bráðaflokkun og áverkamat. Þá hafa deildirnar farið ítarlega yfir verkþátt Rauða krossins í flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar og heimsótt þau starfssvæði sem þeim er ætlað að starfa á. Hjálparsíminn hefur sömuleiðis fengið fjölbreytta fræðslu um hlutverk sitt í almannavarnakerfinu ásamt skrifborðsæfingu. Það var því vel þjálfaður hópur sem mætti til æfingarinnar.

Karl Georg Magnússon formaður neyðarnefndar Suðurnesjadeildar í stjórnstöð.
Sjálfboðaliðar sækja þolendur út í rútu og fylgja í skráningu.
Frá rýnifundi Rauða kross fólks í lok æfingar.

Helstu hlutverk Rauða krossins í flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar eru móttaka, skráning og almenn aðhlynning á söfnunarsvæði slasaðra. Einnig skal opna söfnunarsvæði fyrir aðstandendur. Sá þáttur var þó ekki æfður í þetta skipti. Hjálparsíminn tekur við fyrirspurnum frá aðstandendum og veitir almennar upplýsingar um atburðinn til almennings.

Rauða kross fólkið var sammála um að æfingin hafi gengið vel fyrir sig og margt mætti af henni læra. Sérstaklega ánægjulegt var hversu vel Grindavíkur- og Suðurnesjadeild náðu saman á æfingunni og störfuðu í raun sem einn hópur. 

Til baka...