"Klár í kreppu" í boði Grindavíkurbæjar

7. maí 2009

Grindavíkurbær bauð 10. bekkjum grunnskólans upp á námskeið fjármála- og neytendafræðslu þann 7. maí sl.

Námskeiðið ”Klár í Kreppu” þróaðist í samstarfi með Hinu Húsinu og neytendasamtökunum og er ætlað ungu fólki á aldrinum 16 til 25 ára. Námskeið þessi hafa verið útfærð á ýmsum stöðum á landinu og aðsókn farið fram úr öllum vonum. 
Námsefnið sem notað er heitir Fjárinn og er sérstaklega sniðið að ungu fólki og þeim áherslum sem að þeim lúta í fjármála- og neytendafræðslu. Fjárinn er gefið út á USB lykli sem inniheldur forrit til að halda utan um fjármálin, fjármálahandbók út í lífið og neytendafræðslu. Einnig eru reiknivélar s.s. launareiknivél á lyklinum.

Námskeiðið með 10. bekkingum hér í Grindavík heppnaðist mjög vel og hafði Ragnhildur Guðjónsdóttir leiðbeinandi orð á því hve ánægjulegt það hafi verið að koma í Grunnskóla Grindavíkur og greinilegt að í skólanum ríkir jákvæður andi og góður agi. Hún sagði krakkana hafa tekið sér vel og þau spennt fyrir fræðslunni sem hún vonar að þau eigi eftir að hafa gagn af í framtíðinni. Þess má til gamans geta að það vakti athygli Ragnhildar að nokkrir strákar mættu í jakkafötum og það þótti henni flott enda jakkaföt eiginlega í „stíl „við viðfangsefnið.

Í lokin fengu krakkarnir afhentan USB Lykilinn sem var, eins og námskeiðið, í boði Grindavíkurbæjar.
Grindavíkurdeild Rauða krossins kom að verkefninu sem tengiliður.