Hagsýni og hamingja

25. jan. 2012

Við áramót staldra margir við, horfa yfir farinn veg og rifja upp bæði erfiðleikana en einnig góðu stundirnar, sem vonandi hafa verið fleiri en hinar. Margir leggja svo inn í nýja árið með fögur fyrirheit og stefna að því að þetta ár verði þeim gott.

Síðustu ár hafa verið mörgum erfið og endar ekki alltaf náð saman. Mörg félög  og stofnanir hafa brugðist við þessari neyð heimilanna og stutt við fjölskyldur með ýmsum hætti. Miklar umræður hafa farið fram og tillögur um úrbætur hafa verið af ýmsu tagi. Fræðsla er eitt þeirra úrræða sem  grípa má til og skilar oft góðum árangri, bæði til lengri og skemmri tíma litið.

Á Suðurlandi hafa nú deildir Rauða krossins, Suðurprófastsdæmi, kvenfélagasamböndin og verkalýðsfélög tekið höndum saman og ákveðið að standa fyrir fræðslu undir yfirskriftinni „Hagsýni og hamingja“. Fyrirlesari er Lára Ómarsdóttir fréttakona, sem sjálf hefur reynt það á eigin skinni hvernig það er að takast á við erfiðleika og standa uppi sem sigurvegari. Hún leiðbeinir okkur á léttan og skemmtilegan hátt um það, hvernig taka má á fjármálum heimilisins og leiðir til hagsýni og hamingju með bros á vör. Það þarf nefnilega ekki að vera leiðinlegt að spara, heldur getur ráðdeild og hagsýni verið bæði gleðileg og gefandi. Sjá nánar í auglýsingu.

Þessi fræðsla er fyrir alla, ekki bara þá sem þurfa að taka á fjármálum heimilisins. Þetta eru léttir og skemmtilegir fyrirlestrar sem allir geta haft bæði gagn og gaman af. Aðgangur er ókeypis og hvetjum við  fólk til að koma og eiga góða og gefandi stund um leið og fræðst er um leiðir til hagsýni og hamingju. 

Með ósk um hamingjuríkt ár, er það ekki það sem við stefnum öll að?
Jóhanna Róbertsdóttir verkefnisstjóri Rauða krossins