Starfið á árinu 2008

12. jún. 2009

Alls starfa átta deildir Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum. Sex þeirra starfa á Suðurlandi;
Árnesingadeild, Hveragerðisdeild, Klausturdeild, Rangárvallarsýsludeild, Vestmannaeyjadeild og Víkurdeild og tvær á Suðurnesjum;
Grindavíkurdeild og Suðurnesjadeild.

Fjölbreytt starf er í þessum deildum og eru áherslur svolítið mismunandi, enda deildirnar misstórar og á misfjölmennum svæðum. Áhersla allra deilda er, auk neyðarvarna og neyðaraðstoðar, að rjúfa félagslega einangrun og eru heimsóknavinir því meðal áhersluverkefna allra deilda. Deildirnar standa saman að nokkrum verkefnum á svæðisvísu. Allar deildir eiga sinn fulltrúa í svæðisráði. Formaður svæðisráðs er Eiríkur Jóhannsson.

Skrifstofa svæðisfulltrúa er í húsnæði Hveragerðisdeilar að Austurmörk 7. Svæðisfulltrúi er Jóhanna Fríða Róbertsdóttir
 
Námskeið og kynningar
Haldin voru tvö námskeið í sálrænum stuðningi, á Selfossi (fyrir Hveragerðisdeild og Árnesingadeild)og í Vestmannaeyjum. Fjöldahjálparstjóranámskeið var haldið á Klaustri, Suðurnesjum og Selfossi, tvö námskeið fyrir heimsóknavini í Árnesingadeild og Hveragerðisdeild. Fjölmörg skyndihjálparnámskeið voru haldin og þátttaka í þeim yfirleitt góð.

Viðbrögð vegna efnahagshruns
Deildir Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum brugðust við efnahagsástandinu eftir aðstæðum á hverjum stað en atvinnuleysi í kjölfar bankahrunsins varð mismikið á svæðunum.

Víða voru myndaðir samstarfshópar sem hittust reglulega og fóru yfir stöðuna og var Rauði krossinn virkur þar inni. Allar deildir á Suðurlandi og Suðurnesjum komu að neyðaraðstoð við íbúa á sínu starfssvæði fyrir jólin, annað hvort einar sér eða í samvinnu við sveitarfélög, kirkju og önnur félagasamtök. Aðstoðin var fyrst og fremst í formi úttektarkorta í matvöruverslunum.

Ýmis verkefni
Allar deildir á svæðinu taka á móti notuðum fatnaði. Fatnaðurinn fer til flokkunar á höfuðborgarsvæðinu nema frá Suðurnesjadeild, sem rekur flokkunarstöð og fataúthlutun í húsnæði deildarinnar.

Allar deildir eru með starfandi heimsóknavini og fer verkefnið stækkandi. Margar deildir taka þátt í verkefninu „Föt sem framlag”. Hjá sumum deildum hittast hópar sjálfboðaliða vikulega og prjóna og sauma til góðra verka, en einnig hittast hópar og pakka fatapökkum fyrir börn á aldrinum 0-1 árs. Þessi verkefni njóta aukinna vinsælda.

Í október tóku deildir þátt í landssöfnun Rauða krossins Göngum til góðs. Forseti Íslands tók þátt í að kynna verkefnið með því að heimsækja Fjölbrautaskóla Suðurlands og hvetja nemendur til þátttöku. Misvel gekk hjá deildum að fá sjálfboðaliða til að taka þátt í að ganga og söfnunarfé víða heldur minna en í síðustu söfnun.

Tvær þjóðahátíðir voru haldnar, í Þorlákshöfn og Garðinum. Sjálfboðaliðar deildanna kynntu starf Rauða krossins fyrir gestum sem voru fjölmargir. Málþing um málefni innflytjenda voru haldin í tengslum við þjóðahátíðarnar.
 
Tvær flugslysaæfingar voru haldnar, á Vestmannaeyjaflugvelli og Bakkaflugvelli í Landeyjum. Báðar þessar æfingar gengu vel og tóku fjölmargir sjálfboðaliðar þátt í þeim, auk starfsmanna Rauða krossins. Í tengslum við æfinguna í Vestmannaeyjum var myndaður hópur í áfallahjálp sem fékk fræðslu og þjálfun. Til stendur að auka fræðslu og þjálfun þessa hóps.

Í lok maí voru stórir jarðskjálftar á Suðurlandi. Reyndi mikið á starf Árnesingadeildar og Hveragerðisdeildar í tengslum við þá. Sjálfboðaliðar beggja deildanna stóðu sig með mikilli prýði og brugðust fljótt og vel við, en fljótlega barst liðsauki frá höfuðborgarsvæðinu og víðar, enda verkefnið stærra en svo að heimamenn réðu einir við.

Fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar þar sem veitt var aðstoð í upphafi, en fljótlega voru opnaðar þjónustumiðstöðvar þar sem fulltrúar Rauða krossins stóðu vaktina ásamt fulltrúum frá sveitarfélögum, björgunarsveitum og fleiri aðilum.

Rauði krossinn veitti áfallahjálp og stuðning og var að störfum í þjónustumiðstöðvunum til loka júnímánaðar. Strax eftir jarðskjálftana voru fjölmargir fundir haldnir með íbúum á svæðinu og bæklingum um sálrænan stuðning dreift. Einnig var hugað að því að veita fólki sem ekki sótti fundina, m.a. eldri borgurum, fræðslu um viðbrögð við áfalli. Prestar á svæðinu aðstoðuðu við verkið en mjög gott samstarf var við prestana sem unnu í fjöldahjálpar- og þjónustumiðstöðvunum.

Á haustdögum veitti Rauði krossinn fræðslu um viðbrögð við áföllum í skólum á skjálftasvæðinu. Nemendur, kennarar og starfsfólk skólanna fékk fræðslu og fundað var með foreldrum. Verkefnið sem styrkt var af Kiwanishreyfingunni, var mjög þarft og sýndi sig að þrátt fyrir að nokkur tími hafi verið liðinn frá jarðskjálftunum var mikil þörf fyrir fræðslu af þessu tagi.

Svæðisverkefni
Vorfundur svæðisráðs var að þessu sinni haldinn á Suðurnesjum. Áhersla fundarins var lögð á vinadeildasamstarfið enda mikil vinna hjá deildum við undirbúning og söfnun á fatnaði og öðrum varningi sem sendur var í gámi til vinadeildarinnar í Gambíu.

Gestur fundarins var Helga Þórólfsdóttir sviðsstjóri alþjóðasviðs og sagði hún frá þróunarsamvinnu og starfi Rauða kross Íslands í Afríku. Eftir góðan fund bauð Suðurnesjadeild fundarmönnum upp á skoðunarferð um nágrennið sem lauk með heimsókn í skemmtilegt byggðasafn við Garðskagavita.

Svæðisfundur var haldinn í Hveragerði á haustdögum. Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins var gestur fundarins og kynnti hún m.a. nýjar siðareglur félagsins. Baldur Steinn Helgason verkefnisstjóri á landsskrifstofu ræddi vinadeildasamstarfið í Gambíu. Eftir fundinn var boðið uppá gönguferð um fallegt hálendið ofan bæjarins fyrir þá sem treystu sér að ganga en fyrir hina var skoðunarferð um Hveragerðisbæ og nágrenni í rútu.

Svæðið styrkti rekstur sumarbúða fyrir fatlaða einstaklinga að Löngumýri í Skagafirði. Lítil þátttaka var frá Suðurlandi og Suðurnesjum þrátt fyrir að sumarbúðirnar hefðu verið vel kynntar. Ákveðið var þó að halda þátttöku áfram enn um sinn.

Kassar með pólskum bókum fóru í umferð í samvinnu við héraðsbókasöfn á svæðinu. Um er að ræða fjóra kassa með fjölbreyttum bókum sem fara á milli bókasafnanna eftir ákveðnu skipulagi. Þetta verkefni hefur heppnast ákaflega vel samkvæmt upplýsingum frá starfsfólki bókasafnanna og mikil ánægja með bækurnar meðal lesenda.

Stærsta verkefni svæðisráðs er vinadeildasamstarf við deild í Gambíu. Á vordögum sendu deildirnar á svæðinu gám með ýmsum varningi til vinadeildarinnar í Gambíu. Líflegt sjálfboðaliðastarf var hjá deildunum við undirbúning gámasendingarinnar. Varningi var safnað og var mikil vinna lögð í söfnunina, flokkun og pökkun í gám.

Mikill áhugi er í deildunum á svæðinu fyrir vinadeildasamstarfinu og margir sjálfboðaliðar að störfum við verkefni tengd því, meðal annars í verkefninu Föt sem framlag, en í því felst að fatapökkum sem sjálfboðaliðar búa til fyrir ungabörn í Gambíu er dreift meðal ungra mæðra. Rauða krossinn í Gambíu sér um dreifinguna í samvinnu við heilsugæsluna þar. Margar kynningar um verkefnið og starf Rauða krossins í Gambíu voru haldnar bæði meðal deilda og félagasamtaka auk kynninga í skólum. Einnig fékk verkefnið töluverða fjölmiðlaumfjöllun.