Svæðisfundi deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum lokið

29. sep. 2009

Svæðisfundur Rauðakross deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum var haldinn síðasta laugardag. Fundurinn hófst með námskeiðinu „að starfa í deild“, undir handleiðslu Ómars H. Kristmundssonar, fyrrverandi formanns Rauða kross Íslands. Námskeiðið var vel heppnað, hnitmiðað og skýrt og voru þátttakendur afar ánægðir með það.

Svæðisfundurinn var síðan með hefðbundnu sniði. Formaður svæðisráðs, Árni Þorgilsson, flutti skýrslu síðasta árs og skýrði þau verkefni sem unnið var að, en síðan var horft til næsta starfsárs og þeirra verkefna sem rúmast munu innan fjárhags- og framkvæmdaáætlunar.

Meðal nýjunga á svæðisvísu er fræðsluverkefni sem unnið er með föngum á Litla Hrauni. Verkefnið, sem hófst í byrjun sumars, er í umsjá Hveragerðisdeildar sem sér meðal annars um að útvega sjálfboðaliða til þátttöku. Verkefnið fór vel af stað og er mikill áhugi á að efla það, bæði meðal fanga og starfsfólks á Litla Hrauni og einnig Rauðakross deildanna.

Sigmar Georgsson formaður Vestmannaeyjadeildar og Edda Angantýsdóttir starfsmaður deildarinnar.
Rúnar Helgason formaður Suðurnesjadeildar situr í nefnd um vinadeildasamstarf við deild í Gambíu.

Nokkrir góðir gestir sátu fundinn og ávörpuðu fundarmenn. Má þar nefna Önnu Stefánsdóttur formann Rauða kross Íslands, Guðmund Jóhannsson fjármálastjóra Rauða krossins, Sigrúnu Jóhannesdóttur frá Fatasöfnun,  Hlé Guðjónsson sem kynnti Rauðakrossvikuna og Svövu Traustadóttur úr stjórn URKÍ. Nýr formaður svæðisráðs var kjörinn Sveinn Þorsteinsson formaður Víkurdeildar Rauða krossins.

Svæðisfundurinn var haldinn í umsjá Árnesingadeildar og mættu fulltrúar allra deilda á svæðinu. Að loknum fundi bauð deildin í skoðunarferð um Flóann undir leiðsögn Þórs Vigfússonar sem sagði meðan annars frá draugum og sögum tengdum þeim stöðum sem ferðast var um.