Kynningarvika Rauða kross Íslands

15. okt. 2009

Nú stendur yfir Rauða krossvikan dagana 12. -17. október. Deildir um land allt eru með metnaðarfullar kynningardagskrár sem nær hámarki á laugardaginn. Grindavíkurdeild Rauða krossinns safnaði saman nemendum úr grunnskólanum í morgun út á skólalóð þar sem myndaður var kross og hópurinn myndaður af þaki skólans.
Nemendur mættu flestir í rauðu búningum þar sem liðsbúningar enskra félagsliða voru áberandi.

Á morgun, föstudag, frá kl. 16-18, kynnir Grindavíkurdeild Rauða krossins neyðarvarnir og starf deildarinnar í verslunarmiðstöðinni. Heitt kaffi verður á könnunni og Friðarliljur syngja fyrir gesti.

Markmið með Rauðakrossvikunni er að safna sérstökum sjálfboðaliðum til aðstoðar á tímum áfalla. Þessi Liðsauki gerir Rauða krossinn færari til að bregðast við á neyðartímum. Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna ómetanlegt starf við að aðstoða þá sem eru hjálparþurfi.

Hverjir geta orðið sjálfboðaliðar?
Leitað er að fólki (18 ára og eldri) með mismunandi bakgrunn sem hefur áhuga á mannlegum samskiptum og vill rétta þolendum áfalla hjálparhönd. Verkefnin eru margvísleg en eiga það sameiginlegt að þurfa sjálfboðaliða tafarlaust, meðal annars til að veita skyndihjálp, skrá upplýsingar, elda mat eða túlka af erlendum tungumálum. Það er Rauða krossinum ómetanlegt að geta leitað til fólks sem hefur gefið kost á sér fyrirfram og er reiðubúið að nýta reynslu sína og þekkingu í þágu þolenda áfalla.

Dæmi um verkefni sjálfboðaliða: Svara í síma og veita upplýsingar, barnapössun og umönnun, skyndihjálp, skrá niður upplýsingar, sálrænn stuðningur, útbúa mat og túlka af erlendum tungumálum.

Myndirnar voru teknar í morgun af nemendum í Grunnskóla Grindavíkur.