Forseti Íslands kynnir sér neyðarviðbrögð Rauða krossins

16. okt. 2009

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, heiðrar Rauða krossinn með því að kynna sér starfsemi deilda í Rauðakrossvikunni sem helguð er neyðarviðbrögðum.

Dagskráin í dag hefst með heimsókn til Hveragerðisdeildar klukkan 10. Hann kynnir sér svo starfsemi Rauðakrosshússins í Borgartúni 25 kl. 13:00 en þar er miðstöð Rauða krossins fyrir fólk sem orðið hefur fyrir áföllum í kjölfar efnahagshrunsins. Starf Rauðakrosshússins er byggt á áralangri reynslu félagsins af viðbrögðum í neyð. Kl. 14:00 mun Ólafur Ragnar Grímsson hitta neyðarnefnd og viðbragðshóp deilda Rauða kross Íslands á höfuðborgarsvæðinu í húsnæði Reykjavíkurdeildar Rauða krossins að Laugavegi 120, 4. hæð.

Í gær fór forsetinn í Samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna en þaðan fór hann í heimsókn til neyðarnefndar Suðurnesjadeildar til að kynna sér neyðarvarnarskipulag deildarinnar sem meðal annars sér um að veita sálrænan stuðning við farþega í kjölfar flugatvika á Keflavíkurflugvelli.

Suðurnesjadeild er meðal þeirra deilda sem oftast eru kallaðar út til aðstoðar og er neyðarvarnarskipulag deildarinnar fyrirmynd að skipulagi Rauða kross deilda á öllu landinu. Farið var út á Keflavíkurflugvöll í fylgd Önnu Stefánsdóttur formanns Rauða kross Íslands og Rúnars Helgasonar formanns Suðurnesjadeildarinnar.

Lokapunktur Rauðakrossvikunnar á höfuðborgarsvæðinu verður svo laugardaginn 17. október þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins bjóða almenningi að safnast saman í Rauðakrosshúsinu að Borgartúni 25 og þiggja veitingar og ganga svo upp á Höfðatún og mynda þar manngerðan kross.  Ljósmyndari mun taka loftmynd af krossinum úr körfubíl Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Deildir um allt land hafa einnig kynnt starfsemi sína í neyðarviðbrögðum alla þessa viku og fjölmargar deildir hafa myndað manngerða Rauða krossa á sínu svæði.