Ólafur Ragnar Grímsson heimsótti sjálfboðaliða Rauða krossins

16. okt. 2009

Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson kynntist starfsemi Rauða krossins út frá ýmsum hliðum í dag.

Dagurinn byrjaði á heimsókn austur í Hveragerði þar sem sjálfboðaliðar deildar Rauða krossins tóku á móti forsetanum. Starf deildarinnar í neyðarvörnum er þeim afar hugleikið þar sem þau hafa persónulega reynslu af jarðskjálftum. Einnig kom í ljós í samræðum við forsetann að nokkrir sjálfboðaliðar byrjuðu starf sitt fyrir Rauða krossinn einmitt þegar þeir leituðu í fjöldahjálparstöðina eftir að jarðskjálftinn reið yfir. Starf heimsóknavina og prjónahópsins var einnig skýrt fyrir forsetanum.

Eftir hádegi kynnti Ólafur Ragnar sér starf Rauðakrosshússins. Þar var dagskráin á fullum dampi, konur sátu og prjónuðu, fólk á öllum aldri sat við tölvur, eða við kaffi og spjall og forsetinn ásamt öðrum tók þátt í hláturjóga.

Forsetinn á spjalli við Aðalheiði skrapplistakonu og fleiri í Rauðakrosshúsinu.
Á skrafi við gesti Rauðakrosshússins.
Og hann tók þátt í hláturjóga sem er fastur viðburður á föstudögum í Rauðakrosshúsinu.

Í lok dagsins tók Reykjavíkurdeildin á móti forsetanum sem kynnti sér fjölbreytt starf í neyðarviðbrögðum deildarinnar og félagar í Viðbragðshópi höfuðborgarsvæðis skýrðu verkefni sín.

Lokapunktur Rauðakrossvikunnar á höfuðborgarsvæðinu verður á morgun laugardaginn 17. október þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins bjóða almenningi að safnast saman í Rauðakrosshúsinu að Borgartúni 25 klukkan 15:45 og þiggja veitingar og ganga svo upp á Höfðatún og mynda þar manngerðan kross. Ljósmyndari mun taka loftmynd af krossinum úr körfubíl Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Deildir um allt land hafa einnig kynnt starfsemi sína í neyðarviðbrögðum alla þessa viku og fjölmargar deildir hafa myndað manngerða Rauða krossa á sínu svæði.