Mikil aðsókn á basar prjónahóps Árnesingadeildar

27. okt. 2009

Biðröð myndaðist þegar prjónahópur Árnesingardeildar opnaði basar á Selfossi í húsnæði deildarinnar síðast liðinn laugardag. Rúmlega hálf milljón safnaðist sem rennur að hluta í Hjálparsjóð Rauða krossins. Fyrir utan hefðbundnar prjónavörur var mikið af fallegu jólaskrauti sem seldist upp ásamt rúmfötum og fötum á dúkkur.

Basarinn er haldinn árlega á haustin og af eftirspurn að dæma aukast vinsældir hans ár frá ári. Á boðstólum var fallegt heklað jólaskraut, bjöllur, dúkar, englar og fleira handunnið en greinilegt var að fólk var að kaupa til jólagjafa. Þá bakaði ein prjónakonan 40 brauð sem seldust upp.

Prjónahópurinn samanstendur af konum frá 67 til 82 ára sem ekki eru mikið að hreykja sér af verkum sínum en sjá á þessu að þær gera gagn og hafa gaman af. Konurnar koma saman á mánudögum og prjóna auk þess sem þær prjóna mikið heima.

Það ríkti mikil gleði meðal prjónakvenna þegar afrakstur basarins var talinn í krónum enda lá mikil vinna að baki hans.

Vörurnar sem stóðu eftir af basarnum verða áfram til sölu í húsi deildarinnar að Eyravegi 23 fram í desember.