Gleðidagar meðal nýrra verkefna deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum

24. nóv. 2009

Vinnu við fjárhags- og framkvæmdaáætlanir deilda Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum fyrir næsta ár er nú lokið, og áætlanirnar komnar á sjálfboðaliðavefinn á heimasíðu Rauða krossins. Fjölbreytt verkefni eru fyrirhuguð hjá deildum næsta ár, bæði gömul verkefni sem deildir hafa unnið að í fjölda ára en einnig nokkur ný verkefni, allt eftir því sem passar á hverjum stað.

Eitt þeirra verkefna sem allar deildir vinna að eru neyðarvarnir, en Rauði krossinn hefur hlutverki að gegna í almannavörnum landsins. Hlutverk deilda er meðal annars að sinna fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi. Stuðningur við deildir til að sinna neyðarvörnum, felst meðal annars í því að halda sérstök námskeið fyrir sjálfboðaliða sem sinna þessu verkefni.

Meðal verkefna sem margar deildir hafa unnið að í mörg ár eru heimsóknavinir. Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar sem fara í reglulegar heimsóknir til einstaklinga eða hópa. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að veita félagsskap og eru heimsóknir yfirleitt einu sinni í viku í eina klukkustund í senn. Sjálfboðaliðar fara á sérstakt undirbúningsnámskeið og eru bundnir trúnaði við þá sem þeir heimsækja.

Annað sem margar deildir hafa unnið að undanfarin ár er verkefnið Föt sem framlag. Þar koma sjálfboðaliðar saman og útbúa fatapakka fyrir börn í þróunarlöndum og annars staðar þar sem neyð ríkir. Pakkarnir, sem innihalda fatnað og aðrar nauðsynjar fyrir börn á aldrinum 0-1 árs, eru staðlaðir og vinnur fjöldi sjálfboðaliða deildanna við að prjóna og sauma fatnað í pakkana, ásamt því að pakka og ganga frá þeim til sendingar. Almenn ánægja er meðal sjálfboðaliða í Föt sem framlag og mikið framleitt og pakkað.

Meðal nýjunga sem nokkrar deildir eru með á dagskrá fyrir næsta ár má nefna Gleðidaga, en það er verkefni sem tilraunir voru gerðar með síðastliðið vor og gafst mjög vel. Verkefnið er samstarfsverkefni Rauða krossins og Öldrunarráðs, og gengur út á það að börn og eldri borgarar hittist og eigi saman gæðastundir. Börnin læra margt skemmtilegt og nytsamlegt af eldra fólkinu sem aftur hefur ánægju af því að geta gefið svolítið af sér til þeirra yngri. Um er að ræða samveru í nokkrar klukkustundir á dag í eina viku og eru börnin á aldrinum 7-12 ára, en eldri borgararnir á ýmsum aldri.