Neyðarvarnir og liðsauki

27. nóv. 2009


Eins og fram kom í fréttabréfinu okkar hefur mikið átak verið í gangi í neyðarvörnum. Framhald af þeirri vinnu er meðal annars að Grindavíkurdeild sótti um styrk hjá verkefnasjóði RKÍ til kaupa á tetrastöðvum og hlaut styrk til kaupa á 3 stöðvum - bravó !.

Auknu samstarfi hefur verið komið á við Suðurnesjadeild með það fyrir augum að Grindavíkurdeild komi meira að neyðarvörnum er snúa að Keflavíkurflugvelli.
Á flugverndaræfingu í apríl sl. urðum við áþreifanlega vör við hversu vanbúin við vorum varðandi samskiptatæknibúnað og fundum vel hversu mikilvægt það er að geta verið í samskiptum við þá sem eru að sinna verkefnum á öðrum svæðum og einnig að geta fylgst með framvindu mála. Á æfingunni deildi Suðurnesjadeild upplýsingum til okkar þar sem þeir höfðu tetrastöðvar.
Þetta vakti okkur ennfremur til umhugsunar um hvernig við stæðum hér í okkar heimabæ ef/þegar slys eða hamfarir yrðu hér. Það er augljóst að svona samskiptabúnaður skiptir sköpum fyrir okkur hvað varðar upplýsingaflæði, samskipti, öryggi og skilvirkni í aðgerðum.

Fjöldahjáparstjórar og stuðningsaðilar voru boðaðir á kynningu í október sl. þar sem farið var yfir skipulag fjöldahjálparstöðvar sem búið er að setja upp í tölvu og merkja inn á og eru útpertuð og plöstuð eintök í báðum neyðarvarnartöskunum okkar. Stuttlega var farið yfir hlutverk okkar í neyðarvörnum, og hvað væri á döfinni varðandi námskeið og æfingar. Í lokin var Jón Brynjar Birgisson, verkefnastjóri neyðarvarna Rauða kross Íslands, með erindi um Suðurlandsskjálftana og hvað mátti læra af þeirri reynslu.

Í kynningarviku RKÍ, sem tileinkuð var neyðarvörnum þetta árið, skráðu 15 Grindvíkingar  sig í liðsauka. Jóhanna Róbertsdóttir, svæðisfulltrúi Suðurlands og Suðurnesja var með stutt kynning um Rauða krossinn og hlutverk liðsauka fyrir þessa nýju og velkomnu sjálfboðaliða þann 25. nóvember sl. Það er okkur hjá Grindavíkurdeild mjög mikilvægt að eiga á lista sjálfboðaliða sem hringja má í ef umfang atburða verður það mikið að kalla þurfi til aðstoðar liðsauka og þökkum við þeim sem skráðu sig kærlega fyrir.

Eftir áramót stendur til að halda námskeið í skyndihjálp og sálrænum stuðningi fyrir sjálfboðaliða og að standa fyrir skrifboðsæfingu (flugslys, rútuslys, náttúruvá) og viðbragðshópsnámskeiði fyrir fjöldahjálpastjóra og fólk í neyðarvörnum.