Leikskólar í heimsókn

27. nóv. 2009

Það hefur verið árlegur viðburður hjá Grindavíkurdeild að fá elstu börn leikskólanna í heimsókn á haustdögum. Í ár var engin undantekning á því og skiptust heimsóknirnar niður á 3 daga. Árgangurinn á Króki er það fjölmennur að honum var skipt í 2 hópa en árgangurinn frá Laut kom allur saman.

Börnin fengu að sjá ungbarnapakkningar sem handavinnuhópurinn okkar hefur verið að keppast við að pakka og verða sendar til munaðarlausra barna í Hvíta Rússlandi nú um mánaðamótin. Einnig fengu þau stutta kennslu í skyndihjálp ... að stöðva blóðnasir og gekk það ótrúlega vel. Auðvitað var síðan horft á Hjálpfúsa, sem ötull sinnir starfi sínu hjá Rauða krossinum í þágu mannúðar, og var boðið upp á íspinna með myndinni. Að lokum fengu allir endurskinsborða og skoðunarferð í gegnum sjúkrabílinn þar sem bangsinn Hugrakkur bíður tilbúin til að hugga og hughreysta börn sem þurfa að fara í sjúkabíl og fylgir þeim alveg þangað til þau koma heim aftur og þá eignast Hugrakkur nýtt heimili hjá þeim.

Það hittist svo skemmtilega á að þegar börnin frá Laut komu átti ég (starfsmaður Grindavíkurdeildar RKÍ)   eftir að losa fatagáminn og þau vildu ólm aðstoða mig og gerðu það af miklum krafti og dugnaði ... algjör lúxus hjá mér – takk fyrir hjálpina!

Allir hóparnir voru til fyrirmyndar ... ótrúlega stillt og prúð en jafnfram áhugasöm og spurul.
Já og ekki má gleyma því að þau kenndu mér nokkuð sem ég hafði aldrei séð eða heyrt áður .. það er að benda á munn, nef og augu til að muna 112 númerið; einn munnur – eitt nef- tvö augu ... algjör snilld! Og að sjálfsögðu sungu þau fyrir mig í kveðjuskini – dagurinn getur vart verið betri