• 150904_FOR_EuropeMigrantsItaly.jpg.CROP.promo-xlarge2

Neyðaraðstoð við flóttafjölskyldur frá Sýrlandi

8. maí 2014

Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn sinna gífurlega erfiðu hjálparstarfi við mjög hættulegar aðstæður innan Sýrlands. Sívaxandi straumur flóttamanna frá Sýrlandi kallar á enn frekari aðstoð, og neyðaraðgerðir í nágrannaríkjum Sýrlands eru með þeim viðamestu og flóknustu sem hjálparsamtök hafa komið að um áraraðir.

Rauði krossinn á Íslandi varði tæpum 60 milljónum króna til hjálparstarfs í Sýrlandi og vegna flóttamanna þaðan á liðnu ári. Um er að ræða fjárframlög frá stjórnvöldum, félagasamtökum og almenningi. Rauði krossinn á Íslandi hefur lagt sérstaka áherslu á aðstoð við flóttamenn í Líbanon og er einn sendifulltrúi félagsins Guðný Nielsen þar að störfum.

Sýrlenskir  flóttamenn í Líbanon hafa lítinn aðgang að almennu heilbrigðiskerfi og ríkir því víða mikil neyð. Rauði krossinn á Íslandi hefur í samstarfi við Rauða krossinn í Noregi og Líbanon starfrækt þrjár hreyfanlegar sjúkrastöðvar sem sinna sýrlenskum flóttamönnum.

Læknar og hjúkrunarfræðingar fara um svæðin á sérútbúnum bíl og veita margvíslega læknisþjónustu, auk þess sem gefinn er sérstakur gaumur að leiðum til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum sem því miður fylgir oft aðstæðum sem þessum.

Hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins fyrir sýrlenska flóttamenn með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 905 1500, 905 2500 og 905 5500. Þá bætist við upphæð sem nemur síðustu fjórum tölustöfunum við næsta símreikning.