Tíu milljónir úr Fatímusjóði til neyðarhjálpar Rauða krossins við sýrlenska flóttamenn

13. sep. 2013

Rauði krossinn tók í dag við 10 milljóna króna framlagi til Sýrlandssöfnunar félagsins frá Fatímusjóði. Fénu verður varið til aðstoðar við sýrlenska flóttamenn í Líbanon.
 
Í Líbanon búa 3,9 milljónir manna en um 700 þúsund flóttamenn frá Sýrlandi hafa leitað þar hælis. Flóttafólkið hefur lítinn aðgang að heilbrigðiskerfinu, og hefur Rauði krossinn á Íslandi því hrundið af stað verkefni í samvinnu við líbanska Rauða krossinn til að sinna brýnni þörf fyrir heilsugæslu og læknisaðstoð.

Um er að ræða þrjár hreyfanlegar sjúkrastöðvar sem starfræktar eru fyrir framlög Rauða krossins á Íslandi og í Noregi. Læknar og hjúkrunarfræðingar fara um svæðin á bíl og veita margvíslega læknisþjónustu auk þess sem gefinn er sérstakur gaumur að leiðum til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum sem því miður fylgir oft aðstæðum sem þessum.

Þetta er í annað sinn sem Fatímusjóður styrkir Sýrlandssöfnun Rauða krossins. Framlag sjóðsins er mikilvægur stuðningur við verkefnin sem Rauði krossinn á Íslandi sinnir í hjálparstarfi Rauða krossins og Rauða hálfmánans á svæðinu. Ásamt hjálparstarfi innan Sýrlands og í Líbanon er nú unnið að því að setja upp fullkomið tjaldsjúkrahús í flóttamannabúðum í norðurhluta Jórdaníu, og mun Rauði krossinn á Íslandi að öllum líkindum senda sérfræðinga til starfa við sjúkrahúsið á næstu mánuðum.

Rauði krossinn minnir á söfnunarsímann 904 1500 fyrir þá sem vilja leggja Sýrlendingum lið.  Þegar hringt er í númerið bætast 1500 kr. við símreikning sem varið er til hjálparstarfs Rauða krossins í Sýrlandi og nágrannaríkjum þar sem milljónir flóttamanna hafast við.  

Ástandið á svæðinu fer dagversnandi og óttast Rauði krossinn þær afleiðingar sem harðnandi og langvinn átök munu hafa á íbúa landsins og nágrannaríkja.