Sýrland þarfnast þinnar hjálpar

2. sep. 2013

Rauði krossinn á Íslandi hefur hrundið af stað söfnun meðal almennings fyrir fórnarlömb borgarastríðsins í Sýrlandi. Með söfnuninni vill Rauði krossinn opna vettvang fyrir þá sem vilja sýna Sýrlendingum samstöðu og veita þeim aðstoð í þeim hræðilegu aðstæðum sem þar ríkja.  

Rauði krossinn hefur unnið mikilvægt hjálparstarf í Sýrlandi frá því að átökin brutust út í mars 2011.  Alþjóða Rauði krossinn er meðal fárra samtaka sem veitir aðstoð á svæðum sem stjórnarherinn hefur á valdi sínu. Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hafa dreift matvælum og hreinu vatni auk þess að viðhalda vatnsveitu í landinu sem þjónar um 20 milljón manna.  Lyfjum og skurðáhöldum hefur verið komið til lækna og hjúkrunarfólks sem hlúa að særðum við ömurlegar aðstæður.

Rauði krossinn vinnur einnig það erfiða og hættulega starf að hafa eftirlit með því að fangar séu meðhöndlaðir samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða hálfmánans hætta lífi sínu á hverjum degi við störf sín við sjúkraflutninga og neyðaraðstoð. Alls hafa 22 starfsmenn Rauða hálfmánans látið lífið við skyldustörf frá því átökin hófust, þar af tveir í þessari viku.

Þá vinnur Rauði krossinn viðamikið hjálparstarf í nágrannaríkjum Sýrlands til að aðstoða milljónir manna sem flúið hafa átökin og búa við kröpp kjör ýmist í flóttamannabúðum, hjá vandamönnum eða hafast við undir berum himni.

Alþjóða Rauði krossinn vinnur nú að því að setja upp fullkomið tjaldsjúkrahús í flóttamannabúðum við landamæri Sýrlands í norðurhluta Jórdaníu.  Rauði krossinn á Íslandi styður verkefnið í samvinnu við Rauða krossinn í Finnlandi, Noregi, Þýskalandi og Kanada, og munu íslenskir læknar og hjúkrunarfólk verða sendir þangað til starfa á næstu mánuðum.

Rauði krossinn á Íslandi hefur þegar varið um 60 milljónum króna í neyðaraðstoð Alþjóða Rauða krossins, með stuðningi utanríkisráðuneytis og Fatímusjóðs.  Atburðir liðinna daga og möguleg notkun efnavopna kalla á frekari aðstoð frá Rauða krossinum á Íslandi. Því vill Rauði krossinn gefa almenningi kost á að styðja hjálparstarfið með því að hringja í söfnunarsímann 904 1500 eða leggja fé á reikning Rauða krossins 342-26-000012, kt. 530269-2649.

Hermann Ottósson framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi