Rauði krossinn safnar fyrir neyðaraðstoð í Sýrlandi

28. ágú. 2013

Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið söfnun fyrir neyðaraðstoð í Sýrlandi og fyrir sýrlenska flóttamenn.  Hægt er að styrkja hjálparstarfið með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500 og þá bætast 1500 kr. við næsta símreikning eða greiða með kreditkorti á vefsíðunni.

Atburðir liðinna daga og grunur um notkun efnavopna kalla á frekari aðstoð frá Rauða krossinum á Íslandi. Hjálparstarfið í Sýrlandi og nágrannalöndunum þar sem flóttamenn dveljast er með því viðamesta sem Alþjóða Rauða krossinn hefur tekist á við um árabil.  Gífurleg þörf er á meiri aðstoð, jafnt innan Sýrlands sem í nágrannalöndunum.

Alþjóða Rauði krossinn vinnur nú að því að setja upp fullkomið tjaldsjúkrahús í flóttamannabúðum við landamæri Sýrlands í norðurhluta Jórdaníu. Sjúkrahúsið verður með fæðingardeild, mæðravernd, og fullbúna skurðstofu svo hægt sé að veita alla nauðsynlega þjónustu fyrir allt að 130.000 flóttamenn á svæðinu.

Rauði krossinn á Íslandi styður verkefnið í samvinnu við Rauða krossinn í Finnlandi, Noregi, Þýskalandi og Kanada, og mun að öllum líkindum senda sérfræðinga til starfa við sjúkrahúsið á næstu mánuðum.

Rauði krossinn á Íslandi hefur á liðnu ári varið tæpum 60 milljónum króna til hjálparstarfs í Sýrlandi og vegna flóttamanna þaðan. Rauði krossinn hefur notið til þess styrkja frá utanríkisráðuneyti og Fatímusjóði, en leitar nú til stuðnings almennings vegna vaxandi neyðar á svæðinu.

Alþjóða Rauði krossinn er meðal fárra samtaka sem veitir aðstoð á svæðum sem stjórnarherinn hefur á valdi sínu með því að dreifa matvælum, hreinu vatni, veita læknisaðstoð og hafa eftirlit með því að fangar séu meðhöndlaðir samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Rauði krossinn á Íslandi hefur einnig stutt neyðaraðstoð við Sýrlendinga sem eru á flótta innan eigin landamæra, og heilbrigðisverkefni fyrir flóttafólk sem leitað hefur hælis í Líbanon, Tyrklandi og Jórdaníu.