• Download

Neyðarhjálp til Sýrlands

12. mar. 2015

Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt hjálparstarf í Sýrlandi allt frá því átök brutust út árið 2011. Miklu fé hefur verið varið í starfið og má þar nefna sérstaklega þátt utanríkisráðuneytisins og Fatímusjóðs hennar Jóhönnu Kristjónsdóttur sem hafa lagt til mikið fé til hjálparstarfs. Stuðningur Mannvina, sem hafa styrkt starfið með reglulegum fjárframlögum, er einnig ómetanlegur. Hann hefur gert Rauða krossinum kleift að senda hjálparpakka með hreinlætisvörum til um 4000 fjölskyldna, veita lífsnauðsynlega heilbrigðisaðstoð meðal sýrlenskra flóttamanna í Líbanon og senda hátt í 20 þúsund fatapakka sem hefur komið að góðum notum í vetur þar sem frosthörkur hafa verið miklar og snjór á jörðu.

Um þessar mundir eru tveir sendifulltrúar í Kúrdistan í norðurhluta Íraks frá Rauða krossinum á Íslandi, þær Hrönn Håkansson hjúkrunarfræðingur og María Ólafsdóttir læknir. Þær starfa meðal sýrlensks flóttafólks á færanlegum heilsugæslustöðvum þar sem flóttamenn eiga kost á heilbrigðisþjónustu. Starf Rauða krossins í Sýrlandi hefur verið sérstaklega mikilvægt þar sem engin önnur hjálparsamtök hafa haft sambærilegan aðgang að sýrlensku þjóðinni og verið jafn áberandi á vettvangi. Það er ekki árennilegt starfið sem fram undan er, en það er nauðsynlegt og ber að taka það föstum tökum. Með stuðningi Mannvina getur Rauði krossinn á Íslandi haldið áfram að leggja sitt af mörkum til hjálparstarfs í Sýrlandi. 

Borgarastyrjöld í Sýrlandi hefur staðið í rúm fjögur ár. Eins ótrúlega og það kann að hljóma virðist þetta ógnvænlega stríð stundum gleymast í þeirra súpu alþjóðlegra frétta sem við heyrum á Vesturlöndum, þar sem oft er ekki pláss fyrir nema eina „stærstu“ frétt dagsins. Nú er svo komið að helmingur sýrlensku þjóðarinnar hefur þurft að flýja heimili sín og er á vergangi. Það er erfitt fyrir okkur Íslendinga að skilja hörmungarnar sem Sýrlendingar hafa upplifað. Flestir bjuggu við öryggi í faðmi fjölskyldu sinnar og vina, fólk hafði lífsviðurværi og tilgang í lífinu – börn sóttu skóla og framtíðin virtist björt. Sá veruleiki er nú í órafjarlægð, barátta hvers dags er upp á líf og dauða – fyrsta skylda Sýrlendinga er einungis að lifa af.