12. feb. 2015 : 112 dagurinn á Ísafirði

IMG_4528

15. júl. 2014 : Rauði krossinn í Dýrafirði

Rauði krossinn í Dýrafirði er ein af sex deildum á Vestfjörðum sem vinna saman í deildaráði að fjölbreyttum verkefnum

9. mar. 2011 : Mummi og Nael frá Palestínu hitta börn á Vestfjörðum

Rauðakrossdeildin í V.-Barðastrandarsýslu fékk til sín góða gesti í síðustu viku, þá Mohammed Nazer og Nael Rajabi frá Palestínu. Þeir eru 25 ára og hafa starfað sem sjálfboðaliðar í Rauða hálfmánanum í 12 ár í sínu heimalandi, m.a. sem sjúkraflutningamenn. 

Mummi og Nael, eins og þeir eru kallaðir, eru einnig hluti af sex manna trúðahópi sem fer um Palestínu  á vegum Rauða hálfmánans og heimsækir skóla og munaðarleysingjaheimili og skemmta börnum. Hæfileikar þeirra fengu að njóta sín á íþróttamóti sem haldið var á Tálknafirði því þeir tróðu upp sem trúðar fyrir 5.-7. bekk allra skólanna á svæðinu. Vöktu þeir mikla hrifningu og aðdáun áhorfenda.

24. jan. 2011 : Upplýsingamiðstöð vegna uppsagna á Flateyri

Rauða kross deildin í Önundarfirði hefur opnað upplýsingamiðstöð í kjölfar lokunar fiskvinnslunnar Eyrarodda á Flateyri. Rúmlega 40 manns mættu við opnun þar sem fulltrúar verkalýðsfélagsins, félagsþjónustunnar og vinnumálastofnunar miðluðu upplýsingum til þeirra sem misst hafa vinnuna.

Tilgangur starfsins er að gefa þeim sem misst hafa vinnuna möguleika á að leita upplýsinga, fá kaffisopa og vinna sjálfboðastörf fyrir deildina.

Sjálfboðaliðar frá ýmsum þjóðlöndum munu sjá um að elda súpu með fjölmenningarlegu ívafi og verkalýðsfélagið, vinnumálastofnun og félagsþjónustan munu reglulega mæta í upplýsingamiðstöðina og vera til staðar fyrir atvinnuleitendur. Fjölmenningarsetrið mun aðstoða við túlkun og upplýsingaöflun.

4. jan. 2011 : Hjartahlý tombólustelpa

Hún Sigrún Aðalheiður Aradóttir sex ára átti gleðileg jól með fjölskyldu sinni á Ísafirði. Henni var þá hugsað til allra þeirra barna sem væru svöng úti í heimi og fengu ekki jólamat, fín föt eða gjafir um þessi jól.

Hún ákvað því á milli jóla og nýjárs að halda tombólu til að safna fyrir fátæk börn úti í heimi. Hún hélt tombóluna í verslunarmiðstöðinni Neista á Ísafirði og tókst að safna 2.287 krónum sem hún færði Rauða krossinum.

Það munar mikið um þann fjárstyrk sem börn á Íslandi gefa til hjálparstarfsins. Á síðasta ári söfnuðu um 550 börn hátt í einni milljón króna. Fyrir framlagið er verið að hjálpa börnum á Haítí sem urðu fórnarlömb hamfaranna.

23. des. 2010 : Allir velkomnir í hátíðarkvöldverð á Ísafirði

Rauði krossinn á Vestfjörðum verður með opið hús á aðfangadagskvöld fyrir þá sem eru einir eða vilja fá félagsskap. Safnast verður saman í athvarfinu Vesturafli upp úr klukkan 17 og hátíðarmaturinn er borinn fram klukkan 18. Vesturafl er að Mánagötu 6 á Ísafirði.

„Þetta er fyrir alla sem vilja vera í félagsskap, hvort sem þeir eru einir eða fjölskyldur sem hafa áhuga á að vera í stórum hópi,“ segir Bryndís Friðgeirsdóttir, svæðisfulltrúi Rauða krossins á Vestfjörðum.

9. des. 2010 : Sælla er að gefa en þiggja í Rauða krossinum á Vestfjörðum

Sjálfboðaliðar deilda Rauða krossins á Vestfjörðum hafa í mörgu að snúast þessa dagana eins og aðrir landsmenn. Verkefnin eru fjölbreytt og mörg þeirra eru ekki sýnileg þó þau séu unnin allan ársins hring.

5. okt. 2010 : Svæðisfundur á Vestfjörðum

Svæðisfundur Rauða kross deilda á Vestfjörðum var haldinn á Þingeyri að þessu sinni. Mættir voru fulltrúar sex deilda; Dýrafjarðar-, Bolungarvíkur-, Ísafjarðar-, Súðavíkur-, Súgandafjarðar- og Önundarfjarðardeild.

Á fundinum var lögð fram verkefnaáætlun deildanna en þar er gert ráð fyrir fjölbreyttum verkefnum sem deildirnar vinna að í sameiningu á árinu 2011.

20. sep. 2010 : Listasmiðja stofnsett í Súðavík

Rauði krossinn í Súðavík hefur gert samkomulag við Súðavíkurhrepp um rekstur listasmiðju á Langeyri. Rauða kross deildin hefur undanfarin ár haft aðstöðu í húsnæðinu á Langeyri ásamt öðrum en nú hefur náðst samkomulag um að nýta húsnæðið undir listasmiðju fyrir almenning.

Í listasmiðjunni verður m.a. aðstaða til að vinna og baka gler í þar til gerðum glerbrennsluofni og aðstaða til málmsmíði. Einnig fá grunnskólanemendur að nýta aðstöðuna í sínu námi. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að atvinnulausum og öryrkjum verði tryggður aðgangur að listasmiðjunni og sjálfboðið starf verði skipulagt af deildinni.

3. sep. 2010 : Starfið á árinu

11. maí 2010 : Flugslysaæfing á Ísafjarðarflugvelli

Um 20 sjálfboðaliðar deilda Rauða krossins á norðarverðum Vestfjörðum tóku þátt í flugslysaæfingu á Ísafjarðarflugvelli á laugardaginni. Sjálfboðaliðarnir sáu um opnun fjöldahjálparstöðvar og söfnunarsvæðis aðstandenda auk þess að sinna skyndihjálp og aðhlynningu á söfnunarsvæði slasaðra. Þá tóku einnig gestir frá Akranesdeild Rauða krossins þátt í æfingunni.

Yfir 200 manns tóku þátt í æfingunni, sem gekk mjög vel. Einn helsti tilgangur hennar er að láta reyna á áreiðanleika áætlunarinnar með því að leiða saman þá viðbragðsaðila sem hafa hlutverk í áætluninni og síðan nýta þá reynsluna til að bæta áætlunina.

8. apr. 2010 : Pólskt skyndihjálparnámskeið

Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum buðu Pólverjum sem búa á svæðinu að taka þátt í námskeiði í almennri skyndihjálp sem fram fór á móðurmálinu.

Það var Rafal Marcin Figlarski leiðbeinandi í skyndihjálp og sjúkraflutningamaður sem sá um kennsluna en hún fór fram bæði á Ísafirði og Flateyri.

Haldin voru fjögur námskeið og var góð mæting og almenn ánægja með að fá fræðslu á pólsku um mikilvægi þess að þekkja réttu viðbrögðin þegar á reynir.

23. feb. 2010 : Grunnskólabörnin á Flateyri halda risatombólu

Nemendur í 5. til 8. bekkjum Grunnskólans á Flateyri tóku höndum saman og héldu tombólu í skólanum. Safnað var ýmsum varningi og auglýsing send í hvert hús í bænum með hvatningu um að styðja íbúa á Haítí sem urðu illa úti í jarðskjálfta í janúar.

Fjöldi manns mætti í skólann og studdi gott málefni. Nemendurnir söfnuðu á þennan hátt 30 þúsund krónum sem þeir afhentu Rauða krossinum.

Á myndinni eru hressar stúlkur sem unnu að tombóluhaldinu. Talið frá vinstri: Lawrence Sif Malagar, Karólína Júlía Edwardsdóttir og Anna Anika Jónína Guðmundsdóttir.
 

11. feb. 2010 : Nemendur kynna sér skyndihjálp

Rauði krossinn á Ísafirði stóð fyrir kynningu á neyðarlínunni 112 í samvinnu við slökkvilið Ísafjarðarbæjar á fimmudaginn í tilefni af 112 deginum.

4. feb. 2010 : Tombóla í Neistanum

2. feb. 2010 : Ungar stúlkur gefa til hjálparstarfsins á Haítí

Þrjár ungar stúlkur komu á svæðisskrifstofu Rauða krossins með peninga sem þær höfðu safnað með því að ganga í hús á Ísafirði. Þær sögðu að þeim hefði þótt mikilvægt að gera eitthvað til að hjálpa fólkinu á Haítí sem varð illa úti í jarðskjálftanum.

Þær sögðu að fólk hefði tekið vel á móti þeim þegar þær knúðu dyra. Þær fengu Rauða kross merki til að bera á sér ef þær ætluðu að safan aftur, því mikilvægt er að fólk sem tekur vel á móti söfnurarfóki sjái merki félagsins. Þær sögðust ætla að finna tíma til að halda tombólu og safna meira fé.

29. jan. 2010 : Okkur líður svo vel eftir að hafa gert svona góðverk

Það er óhætt að segja að börn á Íslandi hafi brugðist við þegar jarðskjálftinn reið yfir Haítí. Rauði krossinn hefur fengið margar heimsóknir barna sem hafa safnað í hjálparstarfið. Allt fjármagn sem börn gefa til Rauða krossins með alls kyns söfnunum á þessu ári mun renna til barna á Haíti.
 
„Okkur líður svo vel eftir að hafa gert svona  góðverk,“  sögðu þær stöllur Arnheiður Breiðfjörð Gísladóttir, Ásthildur Elísa Ágústsdóttir og Margrét Krístín Th. Leifsdóttir þegar þær afhentu formanni V-Barðastrandarsýsludeildar, Helgu Gísladóttur afraksturinn af tveim tombólum sem þær héldu í nýliðnum janúarmánuði, samtals kr.5.346.-.

21. jan. 2010 : Samhugur og menntun í Grunnskólanum á Ísafirði

Rauði krossinn heimsótti Grunnskólann á Ísafirði á dögunum og fengu allir nemendur og kennarar skólans fræðslu. Tilefnið var þemadagur í skólanum sem bar heitið samhugur og menntun.

Hrefna Magnúsdóttir formaður Ísafjarðardeildar var með fræðslu fyrir nemendur í 8. - 10. bekk um Rauða  krossinn og Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi sagði frá vinadeildarsamstarfi milli Rauða kross deilda á Vestfjörðum og í North Bank í Gambíu.

Nemendur í 9. bekk grunnskólans eru í vinasambandi við grunnskóla í Gambíu og var nemendunum hrósaði fyrir samhug og góða samvinnu sem ríkir á milli nemendanna.

15. des. 2009 : Jólastund í Vesturafli

Það var glatt á hjalla í Vesturafli á Ísafirði á dögunum þegar boðið var til jólastundar með gestum og starfsfólki athvarfsins.Gestirnir sáu um allan undirbúning, bökuðu smákökur, hituðu súkkulaði og skreyttu allt hátt og lágt. Lesnar voru upp vestfirskar jólasögur og Rauða kross bandið stýrði fjöldasöng þar sem jólalögin voru sungin af innlifun. Uppskriftirnar eru ekkert leyndarmál og þær má finna í jólablaði héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta.

Vesturafl er eitt af athvörfum fyrir fólk með geðraskanir sem rekin eru með stuðningi Rauða krossins. Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum eru bakhjarlar athvarfsins ásamt Félagsmálaráðuneyti og sveitarfélögunum á svæðinu.

7. des. 2009 : Leikskólabörn heimsækja Rauða krossinn

Börnin á Eyrarskjóli heimsóttu Rauða krossinn á Ísafirði á dögunum. Þau hafa verið að læra námsefnið Hjálpfús sem Ísafjarðardeild gaf börnunum á leikskólanum. Börnin komu einnig í heimsókn í nóvember til Rauða krossins og gáfu föt sem þau eru vaxin uppúr.

Hrefna Magnúsdóttir formaður deildarinnar tók á móti börnunum og sagði þeim frá starfi félagsins og gaf þeim endurskinsmerki og spjald með upplýsingum um öryggi á heimilum.
 
Á myndinni er Hrefna Magnúsdóttir að fræða börnin á Eyrarskjóli.

2. des. 2009 : Ungmenni á Ísafirði og Gambíu skiptast á bréfum

Nemendur í 9. bekk Grunnskólans á Ísafirði hafa verið í bréfasamskiptum við börn á sama aldri í North Bank í Gambíu. Er þetta í tengslum við vinadeildarsamstarf milli Rauða kross deilda á Vestfjörðum og deilda í North Bank.

Nemendurnir fengu fræðslu um landið hjá ungmennum frá Gambíu sem heimsóttu Rauða krossinn síðasta vetur. Þeir unnu síðan verkefni um land og þjóð og héldu sýningu á verkum sínum fyrir sjálfboðaliða Ísafjarðardeildar sem eru nemendur í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.

23. okt. 2009 : Hálpfús á leikskólanum Eyrarskjóli

Börnin á Eyrarskjóli á Ísafirði hafa verið að læra um Hjálpfús í leikskólanum. Þar læra þau um mikilvægi þess að láta gott af sér leiða og huga að þeim sem eru minni máttar. Einnig læra þau um vináttu, holla lífshætti og umhverfisvernd.

Í tengslum við námsefnið fá börnin tækifæri til að láta gott af sér leiða með því að gefa föt sem þau eru hætt að nota. Formaður Ísafjarðardeildar Hrefna Magnúsdóttir tók á móti fötunum sem börnin á Eyrarskjóli gáfu Rauða krossinum og sýndi þeim fatagámana sem eru staðsettir við húsnæði Ísafjarðardeildar.
 

21. okt. 2009 : Neyðarvarnarátak hjá Ísafjarðardeild

Sjálfboðaliðar í Rauða krossinum á Ísafirði eru um þessar mundir að fara yfir neyðarvarnir deildarinnar og notuðu tækifærið í Rauðakrossvikunni í síðustu viku til að kynna neyðarvarnir félagsins og safna liðsauka sem gerir deildina færari að bregðast við á neyðartímum.

Sjálfboðaliðar á Vestfjörðum opnuðu fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum á Ísafirði í Rauðakrossvikunni og gáfu fólki innsýn í það starf sem deildin vinnur á neyðartímum. Sjálfboðaliðarnir hvöttu fólk til að koma í rauðum fötum og mynduðu síðan rauða kross á skólalóðinni fyrir myndatöku.

8. okt. 2009 : Ljósmyndasýningin HEIMA – HEIMAN í Edinborgarhúsinu á Ísafirði

Ljósmyndasýningin HEIMA – HEIMAN opnar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í dag og stendur til 10. janúar. Sýningin er unnin í samvinnu við Rauða kross Íslands, Rætur – félag áhugafólks um menningarfjölbreytni og menningarmiðstöðina Edinborg. Markmið sýningarinnar er að vekja athygli á fjölmenningu á Íslandi og er þetta annar áfangastaður á ferð um landið.

Sýningin Heima – Heiman var fyrst sett upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur haustið 2008. Höfundar hennar eru þær Katrín Elvarsdóttir ljósmyndari og Sigrún Sigurðardóttir menningarfræðingur. Ágóði af sölu myndanna rennur til Rauða kross Íslands.

24. sep. 2009 : Svæðisfundur deilda á Vestfjörðum

Rauða kross deildirnar á norðanverðum Vestfjörðum héldu sinn árlega svæðisfund á laugardaginn í Holti í Önundarfirði. Daginn áður var þátttakendum boðið að taka þátt í námskeiðinu Viðhorf og virðing og þáðu margir gott boð.

Á svæðisfundinum var farið yfir þau verkefni sem deildirnar vinna að sameiginlega og verkefnaáætlun fyrir árið 2010 samþykkt.

Gestir fundarins voru Sólveig Ólafsdóttir sviðsstjóri útbreiðslusviðs og Örn Ragnarsson verkefnisstjóri í fatasöfnun Rauða krossins. Sólveig fór yfir þau verkefni sem tengjast Rauðakrossvikunni sem mun standa yfir dagana 12. - 17. október og Örn sagði frá átaki í fatasöfnun meðal landsmanna sem fram fer um þessar mundir.

3. ágú. 2009 : Rauðakrossfræðsla í vinnuskólum

Krakkarnir í vinnuskólanum á Ísafirði og Þingeyri fengu fræðslu um Rauða krossinn og almenna skyndihjálp í sumar. Flokkstjórarnir voru vakandi yfir veðurspánni og kölluðu í Rauða krossinn þegar rigningadagarnir stóðu yfir.

Fræðslan fór fram í sex hópum og voru krakkarnir áhugasamir um þau verkefni sem Rauði krossinn vinnur um allt land og á alþjóðavettvangi.

23. júl. 2009 : Krakkar á Vestfjörðum sækja námskeið Rauða krossins

Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum héldu sumarnámskeið fyrir börn á aldrinum 10 til 11 ára síðustu vikuna í júní. 

12. jún. 2009 : Starfið á árinu 2008

27. maí 2009 : Lilja Jónsdóttir hlýtur viðurkenningu hjá Rauða krossi Íslands

Á aðalfundi Rauða kross Íslands þ. 16.maí s.l. var Lilju Jónsdóttur veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi starf í þágu Rauða krossins. Þrjár aðrar konur voru meðal þeirra fengu viðurkenningu við þetta tækifæri en það voru þær Sigrún Guðbergsdóttir Reykjavíkurdeild, Aðalheiður Vagnsdóttir Akureyrardeild og Birna Zophaniasdóttir Grindavíkurdeild. Þær fengu allar viðurenningarskjal, blómvönd og barmmerki Rauða krossins.

Lilja hefur verið sjálfboðaliði Rauða krossins í mörg ár og s.l. 17 ár séð um verkefnið „Föt sem framlag“. Hennar þáttur hefur falist í því að sjá um að safna saman því sem eldri borgarar í Selinu prjóna og safna, peysur, húfur, sokkar, teppi, bleiur, samfellur o.fl. Eldri borgarar á Patreksfirði hafa verið duglegir að vinna efni í þessa barnafatapakka sem koma sér vel víða og aðallega í Afríku. Lilja hefur haldið utan um þetta, pakkað inn og sent suður. Í dag eru 14 fallegir pakkar tilbúnir til sendingar héðan frá Patreksfirði og hafa þeir vakið athygli fyrir hversu vel þeir eru gerðir og innihaldið fallegt.

12. maí 2009 : Tombólubörn á Ísafirði í heimsókn á alþjóðadegi Rauða krossins

Í tilefni af alþjóðadegi Rauða krossins og Rauða hálfmánans þann 8. maí bauð Ísafjarðardeild Rauða krossins til sín öllum börnum á svæðinu sem hafa haldið tombólur til styrktar Rauða krossinum undanfarin ár.

Þau 20 börn sem mættu af þessu tilefni fengu upplýsingar um það hvernig söfnunarfénu sem þau færðu félaginu var ráðstafað. Einnig var spjallað um starf Rauða krossins og voru börnin áhugasöm og spurðu margra spurninga varðandi verkefni innanlands og utan.

Allir peningar sem börn safna með tombóluhaldi fer í sérstakt verkefni til hjálpar bágstöddum börnum úti í heimi.

28. apr. 2009 : Góð gjöf frá ,,Spólunum"

Nokkrar konur úr bútasaumsfélaginu „Spólurnar“ á Patreksfirði tóku sig til og saumuðu falleg barnateppi til að setja með í ungbarnapakka sem eldri borgarar á Selinu hafa verið að útbúa í vetur í verkefnið Föt sem framlag. Lilja Jónsdóttir hefur gengið frá pökkunum og séð um að koma þeim til Rauða krossins.

Konurnar afhentu teppin í Selinu á dögunum, hvorki meira né minna en 13 listafalleg teppi eins og þeirra er von og vísa. Formaður deildarinnar Helga Gísladóttir þakkaði þeim stöllum sem og eldri borgurum í Selinu innilega fyrir hlýhug og frábært starf fyrir Rauða krossinn.

17. mar. 2009 : Sulayman og Amie, sjálfboðaliðar Rauða krossins í Gambíu, heimsækja Vestfirði

Sjálfboðaliðarnir Sulayman og Amie frá Rauða krossinum í  Gambíu heimsóttu Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum. Þau eru á Íslandi um þessar mundir í boði Reykjavíkurdeildar Rauða krossins.

Deildirnar á Vestfjörðum eru í vinadeildarsamstarfi við deildina í North Bank í Gambíu og buðu sjálfboðaliðunum vestur til að kynna sér starf deildanna þar og fræða heimamenn um Gambíu, land og þjóð.

Sulayman og Amie ferðuðust vítt og breitt um Vestfirði, heimsóttu Rauða kross deildirnar, skóla, athvarf, vinnustaði og heimili. M.a. fóru þau í heimsókn til nemenda 8. bekkjar Grunnskólans á Ísafirði sem hafa verið að læra um Gambíu og eru að hefja bréfasamskipti við jafnaldra sína í þar. Er það hluti af enskukennslunni í skólanum, en opinbera málið í Gambíu er enska.

19. jan. 2009 : Börnin á Eyrarskjóli læra um tilfinningar

Krakkarnir á leikskólanum Eyrarskjóli á Ísafirði hafa verið að vinna með námsefnið Hjálpfús. Á dögunum luku þau við að fara yfir nýjustu sögustundina um tilfinningar sem Rauði krossinn er að gefa á alla leikskóla landsins þessa dagana.

Það hefur verið fastur liður á leikskólanum að vinna með Hjálpfús og í tengslum við verkefnið hafa börnin heimsótt Rauða krossinn og fengið fræðslu um félagið.

Börnin á Eyrarskjóli komu ásamt leikskólakennurum í heimsókn á svæðisskrifstofu Rauða krossins á Ísafirði og sögðu frá Hjálpfúsi og aðferðum sem hann notar við að hjálpa fólki og vera góður við vini sína. Þau voru búin að horfa á mynddiskinn með Hjálpfúsi sem Ísafjarðardeild færði þeim í desember.

5. jan. 2009 : Leikskólarnir fá heimsókn frá Rauða krossinum

Deildir Rauða krossins eru um þessar mundir að heimsækja leikskólana í landinu færandi hendi með Hjálpfús DVD diskinn og fræðsluefni um tilfinningar að gjöf. 

23. des. 2008 : Tælensk börn taka þátt í barnastarfi á Ísafirði

Ísafjarðardeild Rauða krossins hefur haldið uppi barnastarfi í vetur. Börnin sem sækja barnastarfið eru öll frá Tælandi og hittast á þriðjudögum milli klukkan 16 og 19.

19. des. 2008 : Prjónað til styrktar Rauða krossinum

Prjónahópur á Þingeyri hefur verið iðinn við að prjóna vettlinga og sokka í húnsnæði Dýrafjarðardeildar undanfarið. Allt prjónlesið er gefið til hjálparstarfs Rauða krossins. 

21. okt. 2008 : Flugslysaæfing á Þingeyri

Deildir Rauða krossins á Vestfjörðum tóku þátt í flugslysaæfingu á Þingeyri á laugardaginn. Æft var slys þar sem farþegaflugvél með 24 farþegum fórst í lendingu á flugvellinum.

Sjálfboðaliðar Dýrafjarðardeildar sinntu slösuðum á svokölluðu söfnunarsvæði slasaðra sem sett var upp í flugstöðinni á Dýrafjarðarflugvelli, ásamt björgunarsveitarfólki og prestinum á staðnum. Sjálfboðaliðar annarra deilda á norðanverðum Vestfjörðum settu hins vegar upp söfnunarsvæði aðstandenda í grunnskóla Ísafjarðar.

14. okt. 2008 : Sjálfboðaliðar á Vestfjörðum æfa fjöldahjálp

Góð þátttaka var á námskeiði  í fjöldahjálp sem Rauða kross deildir á Vestfjörðum stóðu að síðast liðinn laugardag. Þátttakendur voru þjálfaðir í að taka þátt í fjöldahjálp á neyðartímum með því að taka á móti óslösuðum og aðstandendum. Farið var yfir hlutverk sjálfboðaliða sem þurfa að veita fólki mannlegan stuðning á erfiðum tímum. 

Rauði kross Íslands annast fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf samkvæmt samningi við Almannavarnir ríkisins og eru deildir um allt land sífellt að þjálfa sjálfboðaliða.

8. okt. 2008 : Svæðisfundur deilda á Vestfjörðum

Deildir Rauða krossins á Vestfjörðum héldu svæðisfund á sunnudaginn.

13. maí 2008 : Rk-bandið skemmtir Vestfirðingum

Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Vestfjörðum komu saman í Hlíf, heimili eldri borgara á Ísafirði, á alþjóðadegi Rauða krossins 8. maí.

23. apr. 2008 : Ársskýrsla 2007

10. mar. 2008 : Afríkuandi á aðalfundi Dýrafjarðardeildar

Það ríkti Afríkuandi á aðalfundi Dýrafjarðardeildar sem haldinn var um helgina. Auk venjulegra aðalfundastarfa hlýddu fundarmenn á fræðsluerindi um Gambíu í Afríku.

14. feb. 2008 : Áfangi um sjálfboðið starf í Menntaskólanum á Ísafirði

Rauða kross deild Ísafjarðar og Menntaskólinn á Ísafirði hófu í byrjun árs samstarf um fræðslu og þátttöku nemenda í sjálfboðnu starfi.

13. feb. 2008 : Geðheilbrigði til umfjöllunar á Ísafirði

Undanfarin ár hefur Rauði krossinn staðið fyrir námskeiðum fyrir fólk með geðraskanir, aðstandendur þeirra og áhugafólk. Í kjölfarið hafa verið stofnaðir sjálfshjálparhópar fólks með geðraskanir og einnig meðal aðstandenda. Það getur reynst erfitt að halda sjálfshjálparhópum starfandi til lengdar og býður því Rauði krossinn upp á fræðslu/handleiðslu um hvernig best er að halda sjálfshjálparhóp virkum og „lifandi“. Fyrsti fundurinn var haldinn fyrir höfuðborgarsvæðið í nóvember.
 
Í síðustu viku var haldinn fræðslufundur á Ísafirði og sóttu hann rúmlega 30 manns. Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða krossins greindi frá aðdraganda og markmiðum með fræðslunni og Einar Guðmundsson geðlæknir fór yfir þau atriði sem skipta máli í starfi og virkni hópastarfs til þess að sjálfshjálparhópar eflist og dafni. Leitast var við að fá viðbrögð gesta og reynslusögur þeirra sem starfað hafa í sjálfshjálparhópum. Margrét Ómarsdóttir formaður Barnageðs og Eggert S. Sigurðsson frá Geðhjálp tóku þátt í umræðum og svöruðu fyrirspurnum.

6. des. 2007 : Styrktu matjurtargarð í Gambíu

Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Ísafirði héldu Afríkumarkað til styrktar Rauða kross deildinni í North Bank í Gambíu um síðustu helgi.

 

24. okt. 2007 : Heimsóknavinir Rauða krossins leita að gestgjöfum

Á laugardag lauk námskeiði fyrir heimsóknavini sem var í boði allra deilda á Vestfjörðum. Sautján heimsóknavinir hafa bæst í hóp sjálfboðaliða Rauða krossins og margir þeirra sem sóttu námskeiðið sögðust vera að sækjast eftir vináttu og félagsskap um leið og þeir vilja láta gott af sér leiða.

Einn heimsóknavinur taldi það ávinning fyrir barnið sitt að fá að kynnast eldra fólki sem gæti komið í stað afa eða ömmu og hlakkaði því til að fá tækifæri til að heimsækja eldri borgara. Eldri borgarar búa oft yfir reynslu sem er verðmæt fyrir sjálfboðaliðana þannig að báðir hafa þess vegna eitthvað að gefa og þiggja.

18. okt. 2007 : Sparisjóðir Bolungarvíkur og Vestfirðinga styrkja verkefni Rauða krossins um þrjár milljónir króna

Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Vestfirðinga hafa sameinast um að vera bakhjarlar Rauða krossins á Vestfjörðum í skyndihjálp og neyðarvörnum.

14. sep. 2007 : Vestfirðingar halda svæðisfund

Deildir Rauða krossins á Vestfjörðum héldu sinn árlega svæðisfund dagana 7. og 8. september í Heydal í Mjóafirði. Fulltrúar frá öllum deildum sátu fundinn sem hófst með kvöldverði og hópefli. Boðið var upp á barnagæslu og gátu því foreldrar komið með börnin. Stúlkurnar sem gættu barnanna höfðu að sjálfsögðu sótt námskeiðið börn og umhverfi á vegum Rauða krossins. 

Samþykkt var svæðisáætlun fyrir þau verkefni sem deildirnar vinna að í sameiningu. Undantekningalaust eru allar deildirnar þátttakendur í  sameiginlegum verkefnum svæðisins.

8. ágú. 2007 : Hressar stelpur halda tombólu á Ísafirði

Fimm  hressar stelpur, Hafdís Bára, Aldís Huld, Brynja Dís Höskuldsdætur og Birta Rut Rúnarsdóttir héldu tombólu á Ísafirði á dögunum og söfnuðu 3.600 krónum. Þær komu með peningana á skrifstofu Rauða krossins og fengu í leiðinni fræðslu um það hvað Rauði krossinn gerir við peninga sem börn á Íslandi safna með tombóluhaldi.

Á hverju ári safnast um 400 - 500 þúsund krónum sem eru notaðar til að styrkja börn sem eiga um sárt að binda. Á síðasta ári var söfnunarfénu varið til að aðstoða börn í Sierra Leone, árið 2005 rann féð til aðstoðar börnum í kjölfar flóðbylgjunnar í Asíu og árið 2004 voru heyrnardauf börn í Palestínu aðstoðuð.

Rauði krossinn leggur metnað í að fræða börn um það hvernig tombólupeningunum er varið og fá þau send heim bréf sem útskýrir á hvern hátt peningarnir koma að góðum notum fyrir jafnaldra þeirra, sem minna mega sín.

25. jún. 2007 : Börn útskrifuð með glæsibrag

Tæplega 30 börn, strákar og stelpur á aldrinum 10 til 14 ára sátu námskeiðið Börn og umhverfi sem Ísafjarðardeild Rauða krossins stóð fyrir á dögunum.

Á námskeiðinu var farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Rætt var um árangursrík samskipti, leiðtogahæfni, agastjórnun, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð var áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fengu þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins. Að námskeiðinu loknu fengu börnin skyndihjálpartösku og handbók sem gott er að hafa við höndina við ummönnun barna. 

12. jún. 2007 : Rauði krossinn aðstoðar bæjarbúa í Hnífsdal

Rauða kross deild Ísafjarðar aðstoðaði í Hnífsdal um helgina vegna þess umsátursástands sem skapaðist þegar ölvaður maður notaði skotvopn. 

Húsnæði deildarinnar var opnað þar sem frætt var um eðlileg og óeðlileg viðbrögð við áfalli. Sérstaklega var farið yfir þau atriði sem þarf að útskýra fyrir börnum sem upplifa alvarlega atburði. Fólkið fékk heim með sér bæklingana Aðstoð við börn eftir áfall, Þegar lífið er erfitt og Sálræn skyndihjálp og mannlegur stuðningur sem gefnir eru út af Rauða krossi Íslands. Einnig var bent á símanúmer Rauða krossins til að hafa við hendina ef spurningar vöknuðu.

24. maí 2007 : Fimmtubekkingar heimsækja Rauða krossinn

Áhugasamir fimmtubekkingar í Grunnskólanum á Ísafirði heimsóttu Rauða krossinn á dögunum ásamt kennurum sínum. Þau fengu fræðslu um það sem Rauði krossinn hefur í boði fyrir þann aldurshóp eins og fatasöfnun, tombóluhald og námskeiðið Börn og umhverfi fyrir þau sem gæta barna.

Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi Rauða krossins fór yfir undirstöðuatriði í endurlífgun og fengu krakkarnir að prófa dúkkurnar sem notaðar eru við kennslu á skyndihjálparnámskeiðum.

Námskeiðið Börn og umhverfi verður haldið á Ísafirði dagana 7. og 8. júní. Það er fyrir stelpur og stráka á aldrinum 10 til 13. Hægt er að fá nánari upplýsingar hjá svæðisfulltrúa, [email protected] og í síma 456 3180.

16. maí 2007 : Nemendur Grunnskóla Ísafjarðar kynna sér starf Rauða krossins

Nemendur úr 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði heimsóttu svæðisskrifstofu Rauða krossins á dögunum. Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi fræddi nemendur um starfsemi félagsins heima í héraði, á landsvísu og á alþjóðavettvangi. 

Nemendur voru áhugasamir um starfsemina og spurðu spurninga og komu með tillögur og ábendingar sem geta verið gagnlegar í starfinu. Mikið vær rætt um ungmennahúsið Gamla apótekið á Ísafirði en það er eitt af fyrstu ungmennahúsum á landinu sem deildir Rauða krossins settu á fót.

14. maí 2007 : Starfið á árinu 2006

10. maí 2007 : Opið hús hjá Ísafjarðardeild

Í tilefni alþjóðadags Rauða krossins var opið hús hjá Ísafjarðardeild Rauða krossins þann 6. maí. Kynnt voru verkefni deildarinnar og boðið upp á vöfflur og heitt kakó.

Hrefna Magnúsdóttir formaður deildarinnar kynnti nýtt verkefni sem er að fara af stað í samvinnu við aðrar deildir á Vestfjörðum. Verkefnið ber yfirskriftina Byggjum betra samfélag og felur í sér hvata til að gerast vinafjölskylda eða vinur á þeim forsendum að báðir hafa eitthvað að miðla til hins.

Þriðjudaginn 8. maí bauð Ísafjarðardeildin fólki upp á fræðslu um endurlífgun í Verslunarmiðstöðinni Neysta á Ísafirði. Var fjallað um mikilvægi þess að geta brugðist rétt við þegar á reynir og boðið upp á að prófa blástur og hnoð. Var fólk ýmist að prófa það í fyrsta sinn eða rifja upp það sem það hefur áður lært á skyndihjálparnámskeiðum.

8. maí 2007 : Byggjum betra samfélag á Vestfjörðum

Rauða kross deildirnar á norðanverðum Vestfjörðum héldu opinn fund á fimmtudaginn þar sem kynnt var nýtt verkefni sem ber yfirskriftina Viltu taka þátt í að byggja betra samfélag?
.

27. apr. 2007 : Gestir frá Gambíu í heimsókn

Þrír góðir gestur frá Gambíu eru nú í heimsókn hjá Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands.

3. apr. 2007 : Foreldrar ungra barna á Ísafirði læra skyndihjálp

Rauði krossinn hitti fyrir mæður með ung börn sín í Ísafjarðarkirkju og fræddi þær um almenna skyndihjálp og undirstöðuatriði endurlífgunar. Einnig var rætt um helstu hættur sem börnum stafa af í umhverfinu og hvernig ber að varast þær.

Um árabil hafa foreldrar komið saman í Ísafjarðarkirkju á miðvikudagsmorgnum og átt saman notalega samveru með börnum sínum. Foreldrarnir hafa svo fengið ýmsa aðila úr samfélaginu til að koma með fræðslu sem tengist börnum og barnauppeldi. Að þessu sinni fengu þau Bryndísi Friðgeirsdóttur svæðisfulltrúa Rauða krossins á Vestfjörðum til að vera með fræðslu um skyndihjálp.

30. mar. 2007 : Áhugaverð ráðstefna um málefni innflytjenda

Dagana 26. til 28. mars stóðu Fjölmenningasetur og Háskólasetur Vestfjarða fyrir ráðstefnu um innflytjendur og móttöku þeirra. .

16. maí 2006 : Líflegt fræðslustarf á Vestfjörðum

Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi talar við börnin í 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði.
Nemendur og kennarar í 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði heimsóttu svæðisskrifstofu Rauða krossins á Vestfjörðum á mánudaginn. Þau voru frædd um starf Rauða krossins og tóku með sér fræðslubæklinga sem þau ætla að nota til að kynna starfið fyrir fjölskyldu og vinum. 

?Heimsókn 10. bekkjar er orðinn fastur liður á vorin. Það er gaman að hitta krakkana og oftast skapast líflegar umræður,? segir Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi.

12. maí 2006 : Nordred björgunaræfing vegna ferjuslyss

Hrefna Magnúsdóttir, Þorbjörg Finnbogadóttir, Auður Ósk Aradóttir, Bryndís Friðgeirsdóttir og Sigrún Halldórsdóttir. Þær settu upp fjöldahjálparstöð og tóku á móti á annað þúsund manns og komu þeim síðan áleiðis til Reykjavíkur þar sem sjálfboðaliðar og starfsfólk tóku á móti þeim í Laugardalshöllinni.
Rauði kross Íslands tók þátt í björgunaræfingunni Nordred sem stóð yfir dagana 3. og 4. maí ásamt björgunarráðstefnu sem haldin var á sama tíma. Æfð voru viðbrögð við björgun fólks af erlendu skemmtiferðaskipi með um 1700 manns um borð sem rýma þurfti vegna bruna.

Atvikið átti að eiga sér stað við Hornbjarg. Um var að ræða skrifborðsæfingu og samskipti milli almannavarnanefndar Ísafjarðarbæjar og samhæfingarstöðvar almannavarna við að útvega búnað og mannskap til að takast á við þetta umfangsmikla verkefni.

20. mar. 2006 : Ungir foreldrar á Ísafirði fræðast um slysavarnir

Foreldrarnir æfðu réttu handtökin á brúðum.

Rauði krossinn hitti fyrir unga foreldra á Ísafirði sem koma saman reglulega á miðvikudagsmorgnum í Ísafjarðarkirkju. Auk samverunnar hafa þau boðið til sín aðilum sem geta miðlað þeim þekkingu á sviði uppeldis og umönnunar barna.

Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi á Vestfjörðum hélt fræðsluerindi um slys á börnum en Rauði krossinn býður upp á sérhæfð námskeið sem gagnast öllum umönnunaraðilum barna.

15. mar. 2006 : Nemendur útskrifast af skyndihjálparnámskeiði

Nemendur í 9. og 10. bekk Grunnskóla Þingeyrar með viðurkenningar sínar. Mynd: Grunnskólinn á Þingeyri.
Nemendur í 9. og 10. bekk í Grunnskólanum á Þingeyri fengu afhentar viðurkenningar frá Rauða krossi Íslands fyrir þátttöku sína á skyndihjálparnámskeiði, en nemendur sóttu alls 24 kennslustundir í skyndihjálp sem var valáfangi í skólanum.

Karen Lind Richardsdóttir og Hildur Sólmundsdóttir eru nemendur í skólanum. Þær sögðu að námskeiðið hefði verið mjög fræðandi og margt sem þær vissu ekki fyrirfram.

28. feb. 2006 : Tíu ára afmæli handverks- og tómstundamiðstöðvarinnar á Flateyri

Það var Rauði krossinn, sveitarfélagið og sjóðurinn Samhugur í verki sem stóðu að því að starfsemi handverkshússins fór af stað eftir sjófljóðið 1995 og var fyrst og fremst hugsað sem sálrænn stuðningur við samfélagið á Flateyri.

Handverkshúsið hóf starfsemi sína 27. janúar 1996 í litlu húsnæði í Brynjubæ, þar sem einnig var rekið félagsstarf eldri borgara í Önundarfirði. Starfsemin flutti seinna í stærra húsnæði, Félagsbæ, sem var gamla kaupfélagshúsið á Flateyri.

Fjölþætt starfsemi er í húsinu. Auk þess að vera handverksmiðstöð og vettvangur fyrir félagsstarf eldri borgara er þar verslunin Purka, alþjóðlegt brúðusafn og opið kaffihús að sumarlagi. Húsið hefur einnig verið nýtt fyrir fundi, námskeiðahald og tónleika.

15. des. 2005 : Súðavíkurdeild Rauða krossins styður starf í félagsmiðstöðvum aldraðra og unglinga í Súðavík

Í félagsmiðstöð aldraðra í Súðavík.
Súðavíkurdeild Rauða krossins hefur á undanförnum dögum fært félagsmiðstöðvum eldri borgara og unglinga búnað sem kemur að góðum notum í starfseminni.

Þegar stjórn deildarinnar bar að garði í félagsmiðstöð eldri borgara, þar sem gefin voru hljómflutningstæki, var verið að gera jólaföndur. Vel var tekið á móti Rauða kross fólkinu með dýrindis kaffihlaðborði og var þeim þakkað kærlega fyrir góða gjöf.

23. nóv. 2005 : Sólborgarbörn á Ísafirði aðstoða Rauða kross Íslands

Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi Rauða krossins spjallar við börnin á Sólborg.
Börnin á leikskólanum Sólborg á Ísafirði afhentu fulltrúa Rauða kross Íslands tæpar 4.000 krónur sem þau söfnuðu sjálf.

Öll börnin tóku þátt í verkefni sem fólst í því að þau komu með dósir og flöskur að heiman. Síðan fóru þau öll saman í leiðangur í endurvinnsluna til að fylgjast með því hvað verður um glerflöskurnar eftir að að þeim hefur verið skilað. 

Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi Rauða kross Íslands á Vestfjörðum heimsótti síðan börnin og sagði þeim frá því hvernig peningarnir sem þau söfnuðu munu nýtast til að hjálpa börnum sem búa við erfiðar aðstæður.

16. feb. 2005 : Fréttir úr starfinu á Vestfjörðum

Bolungarvík er með opið hús fyrsta laugardag hvers mánaðar. Í grunnskólanum á Þingeyri fá nemendur í 10. bekk kennslu í almennri skyndihjálp. Fatasöfnun eykst jafnt og þétt á  Vestfjörðum. Ísafjarðardeild og Bolungarvíkurdeild opnuðu fjöldahjálparstöðvar í byrjun árs. Styrktartónleikar voru haldnir á Þingeyri í janúar og söfnuðust yfir 300 þúsund krónur. Vinadeildin í Uzice í Serbíu og Svartfjallalandi hefur óskað eftir aðstoð við að koma upp ungmennastarfi.