15. des. 2005 : Súðavíkurdeild Rauða krossins styður starf í félagsmiðstöðvum aldraðra og unglinga í Súðavík

Í félagsmiðstöð aldraðra í Súðavík.
Súðavíkurdeild Rauða krossins hefur á undanförnum dögum fært félagsmiðstöðvum eldri borgara og unglinga búnað sem kemur að góðum notum í starfseminni.

Þegar stjórn deildarinnar bar að garði í félagsmiðstöð eldri borgara, þar sem gefin voru hljómflutningstæki, var verið að gera jólaföndur. Vel var tekið á móti Rauða kross fólkinu með dýrindis kaffihlaðborði og var þeim þakkað kærlega fyrir góða gjöf.

23. nóv. 2005 : Sólborgarbörn á Ísafirði aðstoða Rauða kross Íslands

Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi Rauða krossins spjallar við börnin á Sólborg.
Börnin á leikskólanum Sólborg á Ísafirði afhentu fulltrúa Rauða kross Íslands tæpar 4.000 krónur sem þau söfnuðu sjálf.

Öll börnin tóku þátt í verkefni sem fólst í því að þau komu með dósir og flöskur að heiman. Síðan fóru þau öll saman í leiðangur í endurvinnsluna til að fylgjast með því hvað verður um glerflöskurnar eftir að að þeim hefur verið skilað. 

Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi Rauða kross Íslands á Vestfjörðum heimsótti síðan börnin og sagði þeim frá því hvernig peningarnir sem þau söfnuðu munu nýtast til að hjálpa börnum sem búa við erfiðar aðstæður.

16. feb. 2005 : Fréttir úr starfinu á Vestfjörðum

Bolungarvík er með opið hús fyrsta laugardag hvers mánaðar. Í grunnskólanum á Þingeyri fá nemendur í 10. bekk kennslu í almennri skyndihjálp. Fatasöfnun eykst jafnt og þétt á  Vestfjörðum. Ísafjarðardeild og Bolungarvíkurdeild opnuðu fjöldahjálparstöðvar í byrjun árs. Styrktartónleikar voru haldnir á Þingeyri í janúar og söfnuðust yfir 300 þúsund krónur. Vinadeildin í Uzice í Serbíu og Svartfjallalandi hefur óskað eftir aðstoð við að koma upp ungmennastarfi.