6. des. 2007 : Styrktu matjurtargarð í Gambíu

Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Ísafirði héldu Afríkumarkað til styrktar Rauða kross deildinni í North Bank í Gambíu um síðustu helgi.

 

24. okt. 2007 : Heimsóknavinir Rauða krossins leita að gestgjöfum

Á laugardag lauk námskeiði fyrir heimsóknavini sem var í boði allra deilda á Vestfjörðum. Sautján heimsóknavinir hafa bæst í hóp sjálfboðaliða Rauða krossins og margir þeirra sem sóttu námskeiðið sögðust vera að sækjast eftir vináttu og félagsskap um leið og þeir vilja láta gott af sér leiða.

Einn heimsóknavinur taldi það ávinning fyrir barnið sitt að fá að kynnast eldra fólki sem gæti komið í stað afa eða ömmu og hlakkaði því til að fá tækifæri til að heimsækja eldri borgara. Eldri borgarar búa oft yfir reynslu sem er verðmæt fyrir sjálfboðaliðana þannig að báðir hafa þess vegna eitthvað að gefa og þiggja.

18. okt. 2007 : Sparisjóðir Bolungarvíkur og Vestfirðinga styrkja verkefni Rauða krossins um þrjár milljónir króna

Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Vestfirðinga hafa sameinast um að vera bakhjarlar Rauða krossins á Vestfjörðum í skyndihjálp og neyðarvörnum.

14. sep. 2007 : Vestfirðingar halda svæðisfund

Deildir Rauða krossins á Vestfjörðum héldu sinn árlega svæðisfund dagana 7. og 8. september í Heydal í Mjóafirði. Fulltrúar frá öllum deildum sátu fundinn sem hófst með kvöldverði og hópefli. Boðið var upp á barnagæslu og gátu því foreldrar komið með börnin. Stúlkurnar sem gættu barnanna höfðu að sjálfsögðu sótt námskeiðið börn og umhverfi á vegum Rauða krossins. 

Samþykkt var svæðisáætlun fyrir þau verkefni sem deildirnar vinna að í sameiningu. Undantekningalaust eru allar deildirnar þátttakendur í  sameiginlegum verkefnum svæðisins.

8. ágú. 2007 : Hressar stelpur halda tombólu á Ísafirði

Fimm  hressar stelpur, Hafdís Bára, Aldís Huld, Brynja Dís Höskuldsdætur og Birta Rut Rúnarsdóttir héldu tombólu á Ísafirði á dögunum og söfnuðu 3.600 krónum. Þær komu með peningana á skrifstofu Rauða krossins og fengu í leiðinni fræðslu um það hvað Rauði krossinn gerir við peninga sem börn á Íslandi safna með tombóluhaldi.

Á hverju ári safnast um 400 - 500 þúsund krónum sem eru notaðar til að styrkja börn sem eiga um sárt að binda. Á síðasta ári var söfnunarfénu varið til að aðstoða börn í Sierra Leone, árið 2005 rann féð til aðstoðar börnum í kjölfar flóðbylgjunnar í Asíu og árið 2004 voru heyrnardauf börn í Palestínu aðstoðuð.

Rauði krossinn leggur metnað í að fræða börn um það hvernig tombólupeningunum er varið og fá þau send heim bréf sem útskýrir á hvern hátt peningarnir koma að góðum notum fyrir jafnaldra þeirra, sem minna mega sín.

25. jún. 2007 : Börn útskrifuð með glæsibrag

Tæplega 30 börn, strákar og stelpur á aldrinum 10 til 14 ára sátu námskeiðið Börn og umhverfi sem Ísafjarðardeild Rauða krossins stóð fyrir á dögunum.

Á námskeiðinu var farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Rætt var um árangursrík samskipti, leiðtogahæfni, agastjórnun, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð var áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fengu þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins. Að námskeiðinu loknu fengu börnin skyndihjálpartösku og handbók sem gott er að hafa við höndina við ummönnun barna. 

12. jún. 2007 : Rauði krossinn aðstoðar bæjarbúa í Hnífsdal

Rauða kross deild Ísafjarðar aðstoðaði í Hnífsdal um helgina vegna þess umsátursástands sem skapaðist þegar ölvaður maður notaði skotvopn. 

Húsnæði deildarinnar var opnað þar sem frætt var um eðlileg og óeðlileg viðbrögð við áfalli. Sérstaklega var farið yfir þau atriði sem þarf að útskýra fyrir börnum sem upplifa alvarlega atburði. Fólkið fékk heim með sér bæklingana Aðstoð við börn eftir áfall, Þegar lífið er erfitt og Sálræn skyndihjálp og mannlegur stuðningur sem gefnir eru út af Rauða krossi Íslands. Einnig var bent á símanúmer Rauða krossins til að hafa við hendina ef spurningar vöknuðu.

24. maí 2007 : Fimmtubekkingar heimsækja Rauða krossinn

Áhugasamir fimmtubekkingar í Grunnskólanum á Ísafirði heimsóttu Rauða krossinn á dögunum ásamt kennurum sínum. Þau fengu fræðslu um það sem Rauði krossinn hefur í boði fyrir þann aldurshóp eins og fatasöfnun, tombóluhald og námskeiðið Börn og umhverfi fyrir þau sem gæta barna.

Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi Rauða krossins fór yfir undirstöðuatriði í endurlífgun og fengu krakkarnir að prófa dúkkurnar sem notaðar eru við kennslu á skyndihjálparnámskeiðum.

Námskeiðið Börn og umhverfi verður haldið á Ísafirði dagana 7. og 8. júní. Það er fyrir stelpur og stráka á aldrinum 10 til 13. Hægt er að fá nánari upplýsingar hjá svæðisfulltrúa, [email protected] og í síma 456 3180.

16. maí 2007 : Nemendur Grunnskóla Ísafjarðar kynna sér starf Rauða krossins

Nemendur úr 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði heimsóttu svæðisskrifstofu Rauða krossins á dögunum. Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi fræddi nemendur um starfsemi félagsins heima í héraði, á landsvísu og á alþjóðavettvangi. 

Nemendur voru áhugasamir um starfsemina og spurðu spurninga og komu með tillögur og ábendingar sem geta verið gagnlegar í starfinu. Mikið vær rætt um ungmennahúsið Gamla apótekið á Ísafirði en það er eitt af fyrstu ungmennahúsum á landinu sem deildir Rauða krossins settu á fót.

14. maí 2007 : Starfið á árinu 2006

10. maí 2007 : Opið hús hjá Ísafjarðardeild

Í tilefni alþjóðadags Rauða krossins var opið hús hjá Ísafjarðardeild Rauða krossins þann 6. maí. Kynnt voru verkefni deildarinnar og boðið upp á vöfflur og heitt kakó.

Hrefna Magnúsdóttir formaður deildarinnar kynnti nýtt verkefni sem er að fara af stað í samvinnu við aðrar deildir á Vestfjörðum. Verkefnið ber yfirskriftina Byggjum betra samfélag og felur í sér hvata til að gerast vinafjölskylda eða vinur á þeim forsendum að báðir hafa eitthvað að miðla til hins.

Þriðjudaginn 8. maí bauð Ísafjarðardeildin fólki upp á fræðslu um endurlífgun í Verslunarmiðstöðinni Neysta á Ísafirði. Var fjallað um mikilvægi þess að geta brugðist rétt við þegar á reynir og boðið upp á að prófa blástur og hnoð. Var fólk ýmist að prófa það í fyrsta sinn eða rifja upp það sem það hefur áður lært á skyndihjálparnámskeiðum.

8. maí 2007 : Byggjum betra samfélag á Vestfjörðum

Rauða kross deildirnar á norðanverðum Vestfjörðum héldu opinn fund á fimmtudaginn þar sem kynnt var nýtt verkefni sem ber yfirskriftina Viltu taka þátt í að byggja betra samfélag?
.

27. apr. 2007 : Gestir frá Gambíu í heimsókn

Þrír góðir gestur frá Gambíu eru nú í heimsókn hjá Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands.

3. apr. 2007 : Foreldrar ungra barna á Ísafirði læra skyndihjálp

Rauði krossinn hitti fyrir mæður með ung börn sín í Ísafjarðarkirkju og fræddi þær um almenna skyndihjálp og undirstöðuatriði endurlífgunar. Einnig var rætt um helstu hættur sem börnum stafa af í umhverfinu og hvernig ber að varast þær.

Um árabil hafa foreldrar komið saman í Ísafjarðarkirkju á miðvikudagsmorgnum og átt saman notalega samveru með börnum sínum. Foreldrarnir hafa svo fengið ýmsa aðila úr samfélaginu til að koma með fræðslu sem tengist börnum og barnauppeldi. Að þessu sinni fengu þau Bryndísi Friðgeirsdóttur svæðisfulltrúa Rauða krossins á Vestfjörðum til að vera með fræðslu um skyndihjálp.

30. mar. 2007 : Áhugaverð ráðstefna um málefni innflytjenda

Dagana 26. til 28. mars stóðu Fjölmenningasetur og Háskólasetur Vestfjarða fyrir ráðstefnu um innflytjendur og móttöku þeirra. .