24. maí 2007 : Fimmtubekkingar heimsækja Rauða krossinn

Áhugasamir fimmtubekkingar í Grunnskólanum á Ísafirði heimsóttu Rauða krossinn á dögunum ásamt kennurum sínum. Þau fengu fræðslu um það sem Rauði krossinn hefur í boði fyrir þann aldurshóp eins og fatasöfnun, tombóluhald og námskeiðið Börn og umhverfi fyrir þau sem gæta barna.

Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi Rauða krossins fór yfir undirstöðuatriði í endurlífgun og fengu krakkarnir að prófa dúkkurnar sem notaðar eru við kennslu á skyndihjálparnámskeiðum.

Námskeiðið Börn og umhverfi verður haldið á Ísafirði dagana 7. og 8. júní. Það er fyrir stelpur og stráka á aldrinum 10 til 13. Hægt er að fá nánari upplýsingar hjá svæðisfulltrúa, [email protected] og í síma 456 3180.

16. maí 2007 : Nemendur Grunnskóla Ísafjarðar kynna sér starf Rauða krossins

Nemendur úr 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði heimsóttu svæðisskrifstofu Rauða krossins á dögunum. Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi fræddi nemendur um starfsemi félagsins heima í héraði, á landsvísu og á alþjóðavettvangi. 

Nemendur voru áhugasamir um starfsemina og spurðu spurninga og komu með tillögur og ábendingar sem geta verið gagnlegar í starfinu. Mikið vær rætt um ungmennahúsið Gamla apótekið á Ísafirði en það er eitt af fyrstu ungmennahúsum á landinu sem deildir Rauða krossins settu á fót.

14. maí 2007 : Starfið á árinu 2006

10. maí 2007 : Opið hús hjá Ísafjarðardeild

Í tilefni alþjóðadags Rauða krossins var opið hús hjá Ísafjarðardeild Rauða krossins þann 6. maí. Kynnt voru verkefni deildarinnar og boðið upp á vöfflur og heitt kakó.

Hrefna Magnúsdóttir formaður deildarinnar kynnti nýtt verkefni sem er að fara af stað í samvinnu við aðrar deildir á Vestfjörðum. Verkefnið ber yfirskriftina Byggjum betra samfélag og felur í sér hvata til að gerast vinafjölskylda eða vinur á þeim forsendum að báðir hafa eitthvað að miðla til hins.

Þriðjudaginn 8. maí bauð Ísafjarðardeildin fólki upp á fræðslu um endurlífgun í Verslunarmiðstöðinni Neysta á Ísafirði. Var fjallað um mikilvægi þess að geta brugðist rétt við þegar á reynir og boðið upp á að prófa blástur og hnoð. Var fólk ýmist að prófa það í fyrsta sinn eða rifja upp það sem það hefur áður lært á skyndihjálparnámskeiðum.

8. maí 2007 : Byggjum betra samfélag á Vestfjörðum

Rauða kross deildirnar á norðanverðum Vestfjörðum héldu opinn fund á fimmtudaginn þar sem kynnt var nýtt verkefni sem ber yfirskriftina Viltu taka þátt í að byggja betra samfélag?
.