15. des. 2009 : Jólastund í Vesturafli

Það var glatt á hjalla í Vesturafli á Ísafirði á dögunum þegar boðið var til jólastundar með gestum og starfsfólki athvarfsins.Gestirnir sáu um allan undirbúning, bökuðu smákökur, hituðu súkkulaði og skreyttu allt hátt og lágt. Lesnar voru upp vestfirskar jólasögur og Rauða kross bandið stýrði fjöldasöng þar sem jólalögin voru sungin af innlifun. Uppskriftirnar eru ekkert leyndarmál og þær má finna í jólablaði héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta.

Vesturafl er eitt af athvörfum fyrir fólk með geðraskanir sem rekin eru með stuðningi Rauða krossins. Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum eru bakhjarlar athvarfsins ásamt Félagsmálaráðuneyti og sveitarfélögunum á svæðinu.

7. des. 2009 : Leikskólabörn heimsækja Rauða krossinn

Börnin á Eyrarskjóli heimsóttu Rauða krossinn á Ísafirði á dögunum. Þau hafa verið að læra námsefnið Hjálpfús sem Ísafjarðardeild gaf börnunum á leikskólanum. Börnin komu einnig í heimsókn í nóvember til Rauða krossins og gáfu föt sem þau eru vaxin uppúr.

Hrefna Magnúsdóttir formaður deildarinnar tók á móti börnunum og sagði þeim frá starfi félagsins og gaf þeim endurskinsmerki og spjald með upplýsingum um öryggi á heimilum.
 
Á myndinni er Hrefna Magnúsdóttir að fræða börnin á Eyrarskjóli.

2. des. 2009 : Ungmenni á Ísafirði og Gambíu skiptast á bréfum

Nemendur í 9. bekk Grunnskólans á Ísafirði hafa verið í bréfasamskiptum við börn á sama aldri í North Bank í Gambíu. Er þetta í tengslum við vinadeildarsamstarf milli Rauða kross deilda á Vestfjörðum og deilda í North Bank.

Nemendurnir fengu fræðslu um landið hjá ungmennum frá Gambíu sem heimsóttu Rauða krossinn síðasta vetur. Þeir unnu síðan verkefni um land og þjóð og héldu sýningu á verkum sínum fyrir sjálfboðaliða Ísafjarðardeildar sem eru nemendur í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.

23. okt. 2009 : Hálpfús á leikskólanum Eyrarskjóli

Börnin á Eyrarskjóli á Ísafirði hafa verið að læra um Hjálpfús í leikskólanum. Þar læra þau um mikilvægi þess að láta gott af sér leiða og huga að þeim sem eru minni máttar. Einnig læra þau um vináttu, holla lífshætti og umhverfisvernd.

Í tengslum við námsefnið fá börnin tækifæri til að láta gott af sér leiða með því að gefa föt sem þau eru hætt að nota. Formaður Ísafjarðardeildar Hrefna Magnúsdóttir tók á móti fötunum sem börnin á Eyrarskjóli gáfu Rauða krossinum og sýndi þeim fatagámana sem eru staðsettir við húsnæði Ísafjarðardeildar.
 

21. okt. 2009 : Neyðarvarnarátak hjá Ísafjarðardeild

Sjálfboðaliðar í Rauða krossinum á Ísafirði eru um þessar mundir að fara yfir neyðarvarnir deildarinnar og notuðu tækifærið í Rauðakrossvikunni í síðustu viku til að kynna neyðarvarnir félagsins og safna liðsauka sem gerir deildina færari að bregðast við á neyðartímum.

Sjálfboðaliðar á Vestfjörðum opnuðu fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum á Ísafirði í Rauðakrossvikunni og gáfu fólki innsýn í það starf sem deildin vinnur á neyðartímum. Sjálfboðaliðarnir hvöttu fólk til að koma í rauðum fötum og mynduðu síðan rauða kross á skólalóðinni fyrir myndatöku.

8. okt. 2009 : Ljósmyndasýningin HEIMA – HEIMAN í Edinborgarhúsinu á Ísafirði

Ljósmyndasýningin HEIMA – HEIMAN opnar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í dag og stendur til 10. janúar. Sýningin er unnin í samvinnu við Rauða kross Íslands, Rætur – félag áhugafólks um menningarfjölbreytni og menningarmiðstöðina Edinborg. Markmið sýningarinnar er að vekja athygli á fjölmenningu á Íslandi og er þetta annar áfangastaður á ferð um landið.

Sýningin Heima – Heiman var fyrst sett upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur haustið 2008. Höfundar hennar eru þær Katrín Elvarsdóttir ljósmyndari og Sigrún Sigurðardóttir menningarfræðingur. Ágóði af sölu myndanna rennur til Rauða kross Íslands.

24. sep. 2009 : Svæðisfundur deilda á Vestfjörðum

Rauða kross deildirnar á norðanverðum Vestfjörðum héldu sinn árlega svæðisfund á laugardaginn í Holti í Önundarfirði. Daginn áður var þátttakendum boðið að taka þátt í námskeiðinu Viðhorf og virðing og þáðu margir gott boð.

Á svæðisfundinum var farið yfir þau verkefni sem deildirnar vinna að sameiginlega og verkefnaáætlun fyrir árið 2010 samþykkt.

Gestir fundarins voru Sólveig Ólafsdóttir sviðsstjóri útbreiðslusviðs og Örn Ragnarsson verkefnisstjóri í fatasöfnun Rauða krossins. Sólveig fór yfir þau verkefni sem tengjast Rauðakrossvikunni sem mun standa yfir dagana 12. - 17. október og Örn sagði frá átaki í fatasöfnun meðal landsmanna sem fram fer um þessar mundir.

3. ágú. 2009 : Rauðakrossfræðsla í vinnuskólum

Krakkarnir í vinnuskólanum á Ísafirði og Þingeyri fengu fræðslu um Rauða krossinn og almenna skyndihjálp í sumar. Flokkstjórarnir voru vakandi yfir veðurspánni og kölluðu í Rauða krossinn þegar rigningadagarnir stóðu yfir.

Fræðslan fór fram í sex hópum og voru krakkarnir áhugasamir um þau verkefni sem Rauði krossinn vinnur um allt land og á alþjóðavettvangi.

23. júl. 2009 : Krakkar á Vestfjörðum sækja námskeið Rauða krossins

Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum héldu sumarnámskeið fyrir börn á aldrinum 10 til 11 ára síðustu vikuna í júní. 

12. jún. 2009 : Starfið á árinu 2008

27. maí 2009 : Lilja Jónsdóttir hlýtur viðurkenningu hjá Rauða krossi Íslands

Á aðalfundi Rauða kross Íslands þ. 16.maí s.l. var Lilju Jónsdóttur veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi starf í þágu Rauða krossins. Þrjár aðrar konur voru meðal þeirra fengu viðurkenningu við þetta tækifæri en það voru þær Sigrún Guðbergsdóttir Reykjavíkurdeild, Aðalheiður Vagnsdóttir Akureyrardeild og Birna Zophaniasdóttir Grindavíkurdeild. Þær fengu allar viðurenningarskjal, blómvönd og barmmerki Rauða krossins.

Lilja hefur verið sjálfboðaliði Rauða krossins í mörg ár og s.l. 17 ár séð um verkefnið „Föt sem framlag“. Hennar þáttur hefur falist í því að sjá um að safna saman því sem eldri borgarar í Selinu prjóna og safna, peysur, húfur, sokkar, teppi, bleiur, samfellur o.fl. Eldri borgarar á Patreksfirði hafa verið duglegir að vinna efni í þessa barnafatapakka sem koma sér vel víða og aðallega í Afríku. Lilja hefur haldið utan um þetta, pakkað inn og sent suður. Í dag eru 14 fallegir pakkar tilbúnir til sendingar héðan frá Patreksfirði og hafa þeir vakið athygli fyrir hversu vel þeir eru gerðir og innihaldið fallegt.

12. maí 2009 : Tombólubörn á Ísafirði í heimsókn á alþjóðadegi Rauða krossins

Í tilefni af alþjóðadegi Rauða krossins og Rauða hálfmánans þann 8. maí bauð Ísafjarðardeild Rauða krossins til sín öllum börnum á svæðinu sem hafa haldið tombólur til styrktar Rauða krossinum undanfarin ár.

Þau 20 börn sem mættu af þessu tilefni fengu upplýsingar um það hvernig söfnunarfénu sem þau færðu félaginu var ráðstafað. Einnig var spjallað um starf Rauða krossins og voru börnin áhugasöm og spurðu margra spurninga varðandi verkefni innanlands og utan.

Allir peningar sem börn safna með tombóluhaldi fer í sérstakt verkefni til hjálpar bágstöddum börnum úti í heimi.

28. apr. 2009 : Góð gjöf frá ,,Spólunum"

Nokkrar konur úr bútasaumsfélaginu „Spólurnar“ á Patreksfirði tóku sig til og saumuðu falleg barnateppi til að setja með í ungbarnapakka sem eldri borgarar á Selinu hafa verið að útbúa í vetur í verkefnið Föt sem framlag. Lilja Jónsdóttir hefur gengið frá pökkunum og séð um að koma þeim til Rauða krossins.

Konurnar afhentu teppin í Selinu á dögunum, hvorki meira né minna en 13 listafalleg teppi eins og þeirra er von og vísa. Formaður deildarinnar Helga Gísladóttir þakkaði þeim stöllum sem og eldri borgurum í Selinu innilega fyrir hlýhug og frábært starf fyrir Rauða krossinn.

17. mar. 2009 : Sulayman og Amie, sjálfboðaliðar Rauða krossins í Gambíu, heimsækja Vestfirði

Sjálfboðaliðarnir Sulayman og Amie frá Rauða krossinum í  Gambíu heimsóttu Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum. Þau eru á Íslandi um þessar mundir í boði Reykjavíkurdeildar Rauða krossins.

Deildirnar á Vestfjörðum eru í vinadeildarsamstarfi við deildina í North Bank í Gambíu og buðu sjálfboðaliðunum vestur til að kynna sér starf deildanna þar og fræða heimamenn um Gambíu, land og þjóð.

Sulayman og Amie ferðuðust vítt og breitt um Vestfirði, heimsóttu Rauða kross deildirnar, skóla, athvarf, vinnustaði og heimili. M.a. fóru þau í heimsókn til nemenda 8. bekkjar Grunnskólans á Ísafirði sem hafa verið að læra um Gambíu og eru að hefja bréfasamskipti við jafnaldra sína í þar. Er það hluti af enskukennslunni í skólanum, en opinbera málið í Gambíu er enska.

19. jan. 2009 : Börnin á Eyrarskjóli læra um tilfinningar

Krakkarnir á leikskólanum Eyrarskjóli á Ísafirði hafa verið að vinna með námsefnið Hjálpfús. Á dögunum luku þau við að fara yfir nýjustu sögustundina um tilfinningar sem Rauði krossinn er að gefa á alla leikskóla landsins þessa dagana.

Það hefur verið fastur liður á leikskólanum að vinna með Hjálpfús og í tengslum við verkefnið hafa börnin heimsótt Rauða krossinn og fengið fræðslu um félagið.

Börnin á Eyrarskjóli komu ásamt leikskólakennurum í heimsókn á svæðisskrifstofu Rauða krossins á Ísafirði og sögðu frá Hjálpfúsi og aðferðum sem hann notar við að hjálpa fólki og vera góður við vini sína. Þau voru búin að horfa á mynddiskinn með Hjálpfúsi sem Ísafjarðardeild færði þeim í desember.

5. jan. 2009 : Leikskólarnir fá heimsókn frá Rauða krossinum

Deildir Rauða krossins eru um þessar mundir að heimsækja leikskólana í landinu færandi hendi með Hjálpfús DVD diskinn og fræðsluefni um tilfinningar að gjöf.