23. okt. 2009 : Hálpfús á leikskólanum Eyrarskjóli

Börnin á Eyrarskjóli á Ísafirði hafa verið að læra um Hjálpfús í leikskólanum. Þar læra þau um mikilvægi þess að láta gott af sér leiða og huga að þeim sem eru minni máttar. Einnig læra þau um vináttu, holla lífshætti og umhverfisvernd.

Í tengslum við námsefnið fá börnin tækifæri til að láta gott af sér leiða með því að gefa föt sem þau eru hætt að nota. Formaður Ísafjarðardeildar Hrefna Magnúsdóttir tók á móti fötunum sem börnin á Eyrarskjóli gáfu Rauða krossinum og sýndi þeim fatagámana sem eru staðsettir við húsnæði Ísafjarðardeildar.
 

21. okt. 2009 : Neyðarvarnarátak hjá Ísafjarðardeild

Sjálfboðaliðar í Rauða krossinum á Ísafirði eru um þessar mundir að fara yfir neyðarvarnir deildarinnar og notuðu tækifærið í Rauðakrossvikunni í síðustu viku til að kynna neyðarvarnir félagsins og safna liðsauka sem gerir deildina færari að bregðast við á neyðartímum.

Sjálfboðaliðar á Vestfjörðum opnuðu fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum á Ísafirði í Rauðakrossvikunni og gáfu fólki innsýn í það starf sem deildin vinnur á neyðartímum. Sjálfboðaliðarnir hvöttu fólk til að koma í rauðum fötum og mynduðu síðan rauða kross á skólalóðinni fyrir myndatöku.

8. okt. 2009 : Ljósmyndasýningin HEIMA – HEIMAN í Edinborgarhúsinu á Ísafirði

Ljósmyndasýningin HEIMA – HEIMAN opnar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í dag og stendur til 10. janúar. Sýningin er unnin í samvinnu við Rauða kross Íslands, Rætur – félag áhugafólks um menningarfjölbreytni og menningarmiðstöðina Edinborg. Markmið sýningarinnar er að vekja athygli á fjölmenningu á Íslandi og er þetta annar áfangastaður á ferð um landið.

Sýningin Heima – Heiman var fyrst sett upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur haustið 2008. Höfundar hennar eru þær Katrín Elvarsdóttir ljósmyndari og Sigrún Sigurðardóttir menningarfræðingur. Ágóði af sölu myndanna rennur til Rauða kross Íslands.