23. des. 2010 : Allir velkomnir í hátíðarkvöldverð á Ísafirði

Rauði krossinn á Vestfjörðum verður með opið hús á aðfangadagskvöld fyrir þá sem eru einir eða vilja fá félagsskap. Safnast verður saman í athvarfinu Vesturafli upp úr klukkan 17 og hátíðarmaturinn er borinn fram klukkan 18. Vesturafl er að Mánagötu 6 á Ísafirði.

„Þetta er fyrir alla sem vilja vera í félagsskap, hvort sem þeir eru einir eða fjölskyldur sem hafa áhuga á að vera í stórum hópi,“ segir Bryndís Friðgeirsdóttir, svæðisfulltrúi Rauða krossins á Vestfjörðum.

9. des. 2010 : Sælla er að gefa en þiggja í Rauða krossinum á Vestfjörðum

Sjálfboðaliðar deilda Rauða krossins á Vestfjörðum hafa í mörgu að snúast þessa dagana eins og aðrir landsmenn. Verkefnin eru fjölbreytt og mörg þeirra eru ekki sýnileg þó þau séu unnin allan ársins hring.

5. okt. 2010 : Svæðisfundur á Vestfjörðum

Svæðisfundur Rauða kross deilda á Vestfjörðum var haldinn á Þingeyri að þessu sinni. Mættir voru fulltrúar sex deilda; Dýrafjarðar-, Bolungarvíkur-, Ísafjarðar-, Súðavíkur-, Súgandafjarðar- og Önundarfjarðardeild.

Á fundinum var lögð fram verkefnaáætlun deildanna en þar er gert ráð fyrir fjölbreyttum verkefnum sem deildirnar vinna að í sameiningu á árinu 2011.

20. sep. 2010 : Listasmiðja stofnsett í Súðavík

Rauði krossinn í Súðavík hefur gert samkomulag við Súðavíkurhrepp um rekstur listasmiðju á Langeyri. Rauða kross deildin hefur undanfarin ár haft aðstöðu í húsnæðinu á Langeyri ásamt öðrum en nú hefur náðst samkomulag um að nýta húsnæðið undir listasmiðju fyrir almenning.

Í listasmiðjunni verður m.a. aðstaða til að vinna og baka gler í þar til gerðum glerbrennsluofni og aðstaða til málmsmíði. Einnig fá grunnskólanemendur að nýta aðstöðuna í sínu námi. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að atvinnulausum og öryrkjum verði tryggður aðgangur að listasmiðjunni og sjálfboðið starf verði skipulagt af deildinni.

3. sep. 2010 : Starfið á árinu

11. maí 2010 : Flugslysaæfing á Ísafjarðarflugvelli

Um 20 sjálfboðaliðar deilda Rauða krossins á norðarverðum Vestfjörðum tóku þátt í flugslysaæfingu á Ísafjarðarflugvelli á laugardaginni. Sjálfboðaliðarnir sáu um opnun fjöldahjálparstöðvar og söfnunarsvæðis aðstandenda auk þess að sinna skyndihjálp og aðhlynningu á söfnunarsvæði slasaðra. Þá tóku einnig gestir frá Akranesdeild Rauða krossins þátt í æfingunni.

Yfir 200 manns tóku þátt í æfingunni, sem gekk mjög vel. Einn helsti tilgangur hennar er að láta reyna á áreiðanleika áætlunarinnar með því að leiða saman þá viðbragðsaðila sem hafa hlutverk í áætluninni og síðan nýta þá reynsluna til að bæta áætlunina.

8. apr. 2010 : Pólskt skyndihjálparnámskeið

Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum buðu Pólverjum sem búa á svæðinu að taka þátt í námskeiði í almennri skyndihjálp sem fram fór á móðurmálinu.

Það var Rafal Marcin Figlarski leiðbeinandi í skyndihjálp og sjúkraflutningamaður sem sá um kennsluna en hún fór fram bæði á Ísafirði og Flateyri.

Haldin voru fjögur námskeið og var góð mæting og almenn ánægja með að fá fræðslu á pólsku um mikilvægi þess að þekkja réttu viðbrögðin þegar á reynir.

23. feb. 2010 : Grunnskólabörnin á Flateyri halda risatombólu

Nemendur í 5. til 8. bekkjum Grunnskólans á Flateyri tóku höndum saman og héldu tombólu í skólanum. Safnað var ýmsum varningi og auglýsing send í hvert hús í bænum með hvatningu um að styðja íbúa á Haítí sem urðu illa úti í jarðskjálfta í janúar.

Fjöldi manns mætti í skólann og studdi gott málefni. Nemendurnir söfnuðu á þennan hátt 30 þúsund krónum sem þeir afhentu Rauða krossinum.

Á myndinni eru hressar stúlkur sem unnu að tombóluhaldinu. Talið frá vinstri: Lawrence Sif Malagar, Karólína Júlía Edwardsdóttir og Anna Anika Jónína Guðmundsdóttir.
 

11. feb. 2010 : Nemendur kynna sér skyndihjálp

Rauði krossinn á Ísafirði stóð fyrir kynningu á neyðarlínunni 112 í samvinnu við slökkvilið Ísafjarðarbæjar á fimmudaginn í tilefni af 112 deginum.

4. feb. 2010 : Tombóla í Neistanum

2. feb. 2010 : Ungar stúlkur gefa til hjálparstarfsins á Haítí

Þrjár ungar stúlkur komu á svæðisskrifstofu Rauða krossins með peninga sem þær höfðu safnað með því að ganga í hús á Ísafirði. Þær sögðu að þeim hefði þótt mikilvægt að gera eitthvað til að hjálpa fólkinu á Haítí sem varð illa úti í jarðskjálftanum.

Þær sögðu að fólk hefði tekið vel á móti þeim þegar þær knúðu dyra. Þær fengu Rauða kross merki til að bera á sér ef þær ætluðu að safan aftur, því mikilvægt er að fólk sem tekur vel á móti söfnurarfóki sjái merki félagsins. Þær sögðust ætla að finna tíma til að halda tombólu og safna meira fé.

29. jan. 2010 : Okkur líður svo vel eftir að hafa gert svona góðverk

Það er óhætt að segja að börn á Íslandi hafi brugðist við þegar jarðskjálftinn reið yfir Haítí. Rauði krossinn hefur fengið margar heimsóknir barna sem hafa safnað í hjálparstarfið. Allt fjármagn sem börn gefa til Rauða krossins með alls kyns söfnunum á þessu ári mun renna til barna á Haíti.
 
„Okkur líður svo vel eftir að hafa gert svona  góðverk,“  sögðu þær stöllur Arnheiður Breiðfjörð Gísladóttir, Ásthildur Elísa Ágústsdóttir og Margrét Krístín Th. Leifsdóttir þegar þær afhentu formanni V-Barðastrandarsýsludeildar, Helgu Gísladóttur afraksturinn af tveim tombólum sem þær héldu í nýliðnum janúarmánuði, samtals kr.5.346.-.

21. jan. 2010 : Samhugur og menntun í Grunnskólanum á Ísafirði

Rauði krossinn heimsótti Grunnskólann á Ísafirði á dögunum og fengu allir nemendur og kennarar skólans fræðslu. Tilefnið var þemadagur í skólanum sem bar heitið samhugur og menntun.

Hrefna Magnúsdóttir formaður Ísafjarðardeildar var með fræðslu fyrir nemendur í 8. - 10. bekk um Rauða  krossinn og Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi sagði frá vinadeildarsamstarfi milli Rauða kross deilda á Vestfjörðum og í North Bank í Gambíu.

Nemendur í 9. bekk grunnskólans eru í vinasambandi við grunnskóla í Gambíu og var nemendunum hrósaði fyrir samhug og góða samvinnu sem ríkir á milli nemendanna.