29. jan. 2010 : Okkur líður svo vel eftir að hafa gert svona góðverk

Það er óhætt að segja að börn á Íslandi hafi brugðist við þegar jarðskjálftinn reið yfir Haítí. Rauði krossinn hefur fengið margar heimsóknir barna sem hafa safnað í hjálparstarfið. Allt fjármagn sem börn gefa til Rauða krossins með alls kyns söfnunum á þessu ári mun renna til barna á Haíti.
 
„Okkur líður svo vel eftir að hafa gert svona  góðverk,“  sögðu þær stöllur Arnheiður Breiðfjörð Gísladóttir, Ásthildur Elísa Ágústsdóttir og Margrét Krístín Th. Leifsdóttir þegar þær afhentu formanni V-Barðastrandarsýsludeildar, Helgu Gísladóttur afraksturinn af tveim tombólum sem þær héldu í nýliðnum janúarmánuði, samtals kr.5.346.-.

21. jan. 2010 : Samhugur og menntun í Grunnskólanum á Ísafirði

Rauði krossinn heimsótti Grunnskólann á Ísafirði á dögunum og fengu allir nemendur og kennarar skólans fræðslu. Tilefnið var þemadagur í skólanum sem bar heitið samhugur og menntun.

Hrefna Magnúsdóttir formaður Ísafjarðardeildar var með fræðslu fyrir nemendur í 8. - 10. bekk um Rauða  krossinn og Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi sagði frá vinadeildarsamstarfi milli Rauða kross deilda á Vestfjörðum og í North Bank í Gambíu.

Nemendur í 9. bekk grunnskólans eru í vinasambandi við grunnskóla í Gambíu og var nemendunum hrósaði fyrir samhug og góða samvinnu sem ríkir á milli nemendanna.