24. jan. 2011 : Upplýsingamiðstöð vegna uppsagna á Flateyri

Rauða kross deildin í Önundarfirði hefur opnað upplýsingamiðstöð í kjölfar lokunar fiskvinnslunnar Eyrarodda á Flateyri. Rúmlega 40 manns mættu við opnun þar sem fulltrúar verkalýðsfélagsins, félagsþjónustunnar og vinnumálastofnunar miðluðu upplýsingum til þeirra sem misst hafa vinnuna.

Tilgangur starfsins er að gefa þeim sem misst hafa vinnuna möguleika á að leita upplýsinga, fá kaffisopa og vinna sjálfboðastörf fyrir deildina.

Sjálfboðaliðar frá ýmsum þjóðlöndum munu sjá um að elda súpu með fjölmenningarlegu ívafi og verkalýðsfélagið, vinnumálastofnun og félagsþjónustan munu reglulega mæta í upplýsingamiðstöðina og vera til staðar fyrir atvinnuleitendur. Fjölmenningarsetrið mun aðstoða við túlkun og upplýsingaöflun.

4. jan. 2011 : Hjartahlý tombólustelpa

Hún Sigrún Aðalheiður Aradóttir sex ára átti gleðileg jól með fjölskyldu sinni á Ísafirði. Henni var þá hugsað til allra þeirra barna sem væru svöng úti í heimi og fengu ekki jólamat, fín föt eða gjafir um þessi jól.

Hún ákvað því á milli jóla og nýjárs að halda tombólu til að safna fyrir fátæk börn úti í heimi. Hún hélt tombóluna í verslunarmiðstöðinni Neista á Ísafirði og tókst að safna 2.287 krónum sem hún færði Rauða krossinum.

Það munar mikið um þann fjárstyrk sem börn á Íslandi gefa til hjálparstarfsins. Á síðasta ári söfnuðu um 550 börn hátt í einni milljón króna. Fyrir framlagið er verið að hjálpa börnum á Haítí sem urðu fórnarlömb hamfaranna.