Okkur líður svo vel eftir að hafa gert svona góðverk

29. jan. 2010

Það er óhætt að segja að börn á Íslandi hafi brugðist við þegar jarðskjálftinn reið yfir Haítí. Rauði krossinn hefur fengið margar heimsóknir barna sem hafa safnað í hjálparstarfið. Allt fjármagn sem börn gefa til Rauða krossins með alls kyns söfnunum á þessu ári mun renna til barna á Haíti.
 
„Okkur líður svo vel eftir að hafa gert svona  góðverk,“  sögðu þær stöllur Arnheiður Breiðfjörð Gísladóttir, Ásthildur Elísa Ágústsdóttir og Margrét Krístín Th. Leifsdóttir þegar þær afhentu formanni V-Barðastrandarsýsludeildar, Helgu Gísladóttur afraksturinn af tveim tombólum sem þær héldu í nýliðnum janúarmánuði, samtals kr.5.346.-.

Þessar ungu athafnakonur sem eru í 2. bekk Patreksskóla á Patreksfirði láta sig velferð þeirra sem minna mega sín greinilega miklu varða því þetta er ekki í fyrsta sinn sem þær halda tombólu og gefa afraksturinn til Rauða krossins.

Mikil gróska er í starfi Rauða kross deildar V-Barðastrandarsýslu og gleðilegt að vita af þeim trausta bakhjarli sem deildin á meðal ungu kynslóðarinnar á staðnum. Framlag þeirra rennur óskipt í „Tombólusjóð“ sem er á hverju ári notaður í valin verkefni sem styrkja börn. Sannast best á framtaki þeirra að margt smátt gerir eitt stórt, en afrakstur barna víðsvegar um landið af tombóluhaldi og öðrum söfnunum til styrktar Rauða krossi Íslands fyrir árið 2009 er nálægt einni og hálfri milljón króna.

Árið 2009 nutu börn í Malaví góðvildar jafnaldra sinna á Íslandi, en Malaví er meðal fátækustu ríkja heims og ekki að efa að framtakssemi ungu kynslóðarinnar íslensku hafi komið í góðar þarfir.

Hægt er að lesa meira um tombólubörnin með því að smella hér.