Svæðisfundur á Vestfjörðum

5. okt. 2010

Svæðisfundur Rauða kross deilda á Vestfjörðum var haldinn á Þingeyri að þessu sinni. Mættir voru fulltrúar sex deilda; Dýrafjarðar-, Bolungarvíkur-, Ísafjarðar-, Súðavíkur-, Súgandafjarðar- og Önundarfjarðardeild.

Á fundinum var lögð fram verkefnaáætlun deildanna en þar er gert ráð fyrir fjölbreyttum verkefnum sem deildirnar vinna að í sameiningu á árinu 2011.

Anna Stefánsdóttir formaður Rauða kross Íslands var sérstakur gestur fundarins og fór yfir stefnu félagsins sem nú er í endurskoðun. Sjálfboðaliðar í deildum um allt land taka þátt í að endurskoða stefnuna sem síðan verður samþykkt endanlega á aðalfundi félagsins. Einnig var rætt um vinadeildarsamstarf deildanna á Vestfjörðum en þær eiga í vinasambandi við Rauða kross deild í North Bank í Gambíu.

Sjálfboðaliðarnir á fundinum lýstu ánægju sinni með stærsta verkefnið á svæðinu sem er rekstur athvarfsins Vesturafls sem staðsett er á Ísafirði. Þar fer fram blómlegt starf og kom fram á fundinum að margt fólk hefur náð að styrkja sig og efla í Vesturafli. Sjálfboðið starf í tengslum við athvarfið einkum nytjamarkaðinn eflist með hverju ári.