Sælla er að gefa en þiggja í Rauða krossinum á Vestfjörðum

9. des. 2010

Sjálfboðaliðar deilda Rauða krossins á Vestfjörðum hafa í mörgu að snúast þessa dagana eins og aðrir landsmenn. Verkefnin eru fjölbreytt og mörg þeirra eru ekki sýnileg þó þau séu unnin allan ársins hring. Þegar fólk er spurt hvort það viti hvað Rauði krossinn gerir þá muna flestir eftir svöngum börnum í Afríku, fatasöfnun og sumir nefna sjúkrabílana. Verkefni Rauða krossins innanlands eru mun stærri þáttur í starfsemi félagsins en alþjóðaverkefnin. Sum verkefnin eru sniðin að þörfum samfélagsins á hverjum tíma og eru ólík eftir landssvæðum.

Heimsóknavinir
Verkefnið heimsóknavinir er bæði lifandi og skemmtilegt. Heimsóknavinir eru að störfum allt árið um kring  og sjálfboðaliðarnir sem starfa við verkefnið hafa af því mikla ánægju. Hlutverk heimsóknavina er fyrst og fremst að rjúfa félagslega einangrun fólks. Einstaklingur sem fær heimsókn er þá gestgjafinn sem hlakkar til að fá vin sinn í heimsókn og er þá gjarnan búinn að hella uppá kaffi. Það má því segja að oft er sælla að gefa en þiggja í Rauða krossinum. 

Rauðakrossbandið
Nokkrir sjálfboðaliðar á Ísafirði eru úr hópi eldri borgara. Auk þess að vera heimsóknavinir halda þeir reglulega fjölmenn harmonikkuböll í Edinborgarhúsinu og syngja og spila í Rauðakrossbandinu sem ferðast um og syngur með öðrum eldri borgurum. Þó þessi Rauða kross verkefni séu ekki alltaf sýnileg veita þau ánægju og fegra líf margra.

Í þessari viku er Rauði krossinn á Vestfjörðum að vekja athygli á störfum sjálfboðaliðanna. Rauði krossinn er stærsta sjálfboðaliðahreyfing heims og starfið hvílir á herðum fjölmargra sjálfboðaliða sem starfa eftir sömu grundvallarmarkmiðum um allan heim. Án sjálfboðaliða væri Rauði krossinn ekki sú öfluga hreyfing sem raun ber vitni.

Boðið í bíó
Á laugardaginn mun Rauða kross deild Ísafjarðar í samstarfi við félags- og tryggingamálaráðuneytið og Vesturport bjóða í bíó. Sýnd verður myndin Börn eftir Ragnar Bragason. Með því vill Rauði krossinn á Ísafirði vekja athygli á mikilvægi þess að huga ávallt að högum barna, ekki síst þegar þrengir að. Myndin verður sýnd í Ísafjarðarbíói næsta laugardag, 11. desember, kl. 13.00 og aðgangur er ókeypis. Boðið verður upp á heitt súkkulaði og piparkökur áður en myndin hefst og mun Rauðakrossbandið hita upp fyrir sýninguna.