Ísafjarðardeild - starfið á árinu

15. mar. 2012

Á ári sjálfboðaliðans, 2011 hefur Ísafjarðardeild unnið að margvíslegum verkefnum bæði í eigin nafni og í samvinnu við fjölda einstaklinga, aðrar deildir, stofnanir og fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög. Störf deildarinnar hafa að nær öllu leyti verið unnin í sjálfboðaliðavinnu þar sem deildin hefur ekki starfsmenn á launum. Á árinu náði deildin þeim árangri að þróa nýtt námskeið fyrir fólk á aldrinum 65 ára og eldra um öryggismál í víðum skilningi og verður nánar gert grein fyrir því síðar í skýrslunni.  Það sem stendur upp úr á árinu er að deildin getur verið afar stolt af því góða fólki, sjálfboðaliðum, liðsaukum og einstaklingum sem gefa tíma sinn, peninga og föt til starfseminnar og öllum þeim skemmtilegu tímum og verkefnum sem unnið var að.

Aðstaða deildarinnar
Ísafjarðardeild er til húsa að Suðurgötu 12 í Vestrahúsinu á Ísafirði og deilir skrifstofu með svæðisfulltrúa og hefur einnig til afnota fundaraðstöðu þar. Á árinu var farið í þá vinnu að skoða hvort deildin myndi flytja á nýjan stað og vera með aðstöðu sína í samstarfi við m.a Vesturafl, Starfsendurhæfingu Vestfjarða og fleiri aðila sem koma að mannræktarstarfi á svæðinu. Því miður þá gekk ekki að fá það húsnæði sem falast var eftir og verður deildin því áfram í Vestrahúsinu um einhvern tíma. Mikil og góð samvinna hefur verið við ýmsar stofnanir í húsinu og má sérstaklega geta samvinnu deildarinnar og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða sem hafa m.a samnýtt aðstöðu undir námskeiðahald, fundi, kynningar og fleira.

Fundir  
10 formlegir stjórnarfundir voru haldnir á árinu og einnig óformlegir fundir vegna sérstakra verkefna og viðburða, þá eru ótalin samskipti í gegnum síma og tölvupóst. Stjórnarfundir er haldnir fyrsta þriðjudag í mánuði.
Aðalfundur deildarinnar var haldinn 24. febrúar og var á þeim fundi sérstök kynning á verkefninu um öryggismál aldraðra. Auður Ólafsdóttir leiðbeinandi í skyndihjálp og sálrænum stuðningi og Sigrún Gerða Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur og sjálfboðaliði Rauða krossins til margra ára sögðu frá því ómetanlega starfi sem þær unnu m.a við gerð kennsluefnis sem er í formi kvikmyndar um öryggisatriði á heimilum eldri borgara, slysavarnir, sálrænan stuðning og fleira.

Varaformaður sótti formannafund í Reykjavík sem haldinn var 26. mars og þrír stjórnarmenn sóttu aðalfund Rauða kross Íslands sem haldinn var í Reykjanesbæ þann 21.maí. Haustfundur Svæðisráðs var haldinn 7. október á Suðureyri í boði Súgandafjarðardeildar .

Stjórnarmaður í Ísafjarðardeild og formaður Svæðisráðs tók einnig þátt í stefnumótunarvinnu innan Rauða kross Íslands.

Einstaklingsaðstoð
Vegna minnkandi tekna deildarinnar var einstaklingsaðstoð minni en árið 2010. Þörfin fyrir fjárhagsaðstoð og fataúthlutanir var samt ekki minni en upphæðir til hverrar fjölskyldu eða einstaklings voru lægri en árið á undan. Deildin veitti einnig neyðaraðstoð í tengslum við andlát og veitti fjárhagsstuðning vegna náttúruhamfara erlendis. Samstarf var við sveitarfélag, kirkju og fleiri aðila í tengslum við einstaklingsaðstoð fyrir jólin en á árinu 2012 er stefnt að því að stofna velferðarsjóð þar sem ýmsir aðilar, sveitarfélög, fyrirtæki, félög og einstaklingar geta sameinast um aðstoð til fjölskyldna og einstaklinga.
Jólamatur í Vesturafli.

Á undanförnum árum hefur Ísafjarðardeild boðið upp á samveru á aðfangadag í húsnæði Vesturafls fyrir þá sem eru einir eða vilja njóta samveru annarra. Starfsfólk Vesturafls og sjálfboðaliðar deildarinnar sem hafa gefið tíma sinn á jólahátíðinni hafa séð um undirbúning og skipulag en matur og jólagjafir hafa verið í boði deildarinnar.

Fatamóttaka
Tveir gámar eru staðsettir fyrir utan húsnæði deildarinnar og eru reglulega send 1-2 bretti í viku til fataflokkunar í Reykjavík en jafnframt fer fram ákveðinn flokkun áður en föt og fleira eru sent í burtu. Mikið og gott samstarf er við Vesturafl og markaðinn á vegum þeirra um móttöku á fötum, húsbúnaði og fleiru sem er seldur á svæðinu. Góð samvinna hefur verið við Eimskip við flutning á fötum og fleiru fyrir deildina.  Sjálfboðaliðar koma einnig að starfinu á markaðnum,m.a í tengslum við skipulagningu, flokkun og endurvinnslu. Nemendur í áfanganum SJÁ – 102 í Menntaskólanum á Ísafirði koma einnig að því starfi.

Námskeið – Almenn og sálræn skyndihjálp
Haldinn var fjöldi námskeiða bæði í almennri skyndihjálp og sálrænum stuðningi fyrir ýmsa hópa í samfélaginu m.a fyrir starfsfólk hjá ýmsum stofnunum sveitarfélagsins, fyrirtækjum og skólafólk svo eitthvað sé nefnt. Nemendur í grunnskóla, vinnuskóla og menntaskóla fengu þjálfun í almennri skyndihjálp og einnig mæður með ung börn sem sækja reglulega mömmumorgna hjá kirkjunni. Einnig var haldið námskeiðið Börn og umhverfi sem var mjög vel sótt.

Sérstök skyndihjálparnámskeið á pólsku voru í boði m.a fyrir starfsfólk í fiskvinnslu og atvinnulausa.

Leiðbeinendur í skyndihjálp og sálrænum stuðningi sóttu endurmenntun.

Fyrstu námskeiðin fyrir fólk á aldrinum 65 ára og eldra um öryggismál, slysavarnir, skyndihjálp og sálrænan stuðning voru haldin í lok ársins og verður framhaldið á þessu ári.

Kynningar – og fræðsla – Haldnar voru kynningar á starfi Rauða krossins fyrir sjálfboðaliða og nýja liðsauka. Einnig var kynning á starfi deildarinnar fyrir einstaklinga í Starfsendurhæfingu Vestfjarða.

Á 112 deginum var sérstök kynning á sálrænum stuðningi í Menntaskólanum á Ísafirði og fræðsla í Grunnskólanum á Ísafirði í samstarfi við slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn. Einnig var kynning á notkun hjartastuðtækis í fyrirtækjum á svæðinu.

Heimsóknir
Sjálfboðaliðar ásamt svæðisfulltrúa fóru í ýmsar heimsóknir til að kynna starf og einstök verkefni Rauða krossins og deildarinnar. Ýmsir hópar og einstaklingar komu einnig í heimsókn til deildarinnar og fengu fræðslu um ýmis mál. Sérstök kynning var m.a haldin fyrir sjúkraliðanema og eldri borgara í félagsstarfi aldraðra.

Deildirnar á svæðinu fengu heimsókn frá tveimur palestínskum sjálfboðaliðum Rauða hálfmánans í mars. Þeir heimsóttu m.a nemendur í grunnskólum á svæðinu m.a sem trúðar og héldu einnig sérstaka kynningu um aðstæður og störf þeirra sem sjálfboðaliðar og sjúkraflutningamenn í Palestínu fyrir nemendur í 10. Bekk á Ísafirði og fyrir almenning íVísindaporti við Háskólasetur Vestfjarða.  Heimsókn til slökkviliðs og sjúkraflutningamanna á svæðinu, fjallaferð með félögum í björgunarsveitinni í Hnífsdal, kleinubakstur með nemendum í grunnskólanum voru einnig hluti af skemmtilegri upplifun þeirra á svæðinu. Einnig var þeim fylgt eftir af breskri kvikmyndagerðarkonu sem tók viðtöl og myndaði heimsókn þeirra til Vestfjarða.

Neyðarvarnir
Eins og áætlað er á hverju ári var unnið að uppfærslu á neyðarvarnaáætlun og endurskoðun á fjöldahjálparstöð og söfnunarsvæði aðstandenda sem er nú í nýrri byggingu grunnskólans á Ísafirði. Stöðugt er unnið að því að bæta áætlanir og sér neyðarnefnd deildarinnar ásamt stjórn um að bera ábyrgð á þeim þáttum. Á vegum deildarinnar hefur einnig starfað áfallateymi og hefur það sinnt útköllum í samstarfi við heilbrigðisstofnun og heilsugæslu, björgunarsveitir og fleiri aðila. Fulltrúar deilda og svæðisins sitja einnig í samráðshópi áfallahjálpar á landsvísu.

Hjálpfús
Leikskólar á svæðinu voru heimsóttir og þeim fært efni um Hjálpfús.  Börn frá leikskólunum (tveir á Ísafirði) komu einnig í heimsókn í aðstöðu deildarinnar í tengslum við verkefnavinnu með Hjálpfús og afhentu deildinni m.a föt sem þau höfðu safnað saman heima.

Tombólukrakkar
Deildinni voru færðir peningar sem safnað var á tombólum eða með söfnunum. Börnin eru mikilvægir sjálfboðaliðar og liðsaukar sem taka þátt í að styrkja starfsemi Rauða krossins.

Barna- og ungmennastarf
Ekkert barnastarf með innlytjendabörnum var á árinu 2011 eins og árin á undan því ekki var talin þörf á slíku starfi áfram. Reynt var að stofna ungmennahóp innan deildarinnar en ákveðið var að huga betur að samvinnu við önnur félög, skóla og ungmenni frekar. Samvinna hefur m.a verið við félagsmiðstöðina í Grunnskólanum á Ísafirði og ungmenni í björgunarsveitum á svæðinu. Fræðsla um sálrænan stuðning hefur einnig verið fyrir ungmenni í björgunarsveitum.

Haldið var ókeypis sumarnámskeið, Mannúð og menning fyrir börn á aldrinum 7-12 ára í Barnaskólanum í Hnífsdal í tvær vikur í júlí og var það mjög vel heppnað. Færri komust að vildu en deildirnar á svæðinu hafa sameinast um að bjóða upp á námskeiðin. Það sem m.a var boðið upp á var fræðsla um Rauða krossinn, kennsla í skyndihjálp og slysavörnum, fræðsla um fjölmenningu, endurvinnslu og fleira. Börnin fengu líka heimsókn og fræðslu frá slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum og frá starfsfólki Fjölmenningarseturs.

Vesturafl
Mikið og gott samstarf er við Vesturafl, geðræktarmiðstöð sem deildin styrkir ásamt öðrum deildum á svæðinu. Samvinna vegna fataflokkunar, sjálfboðaliða, markaðar, ýmissa atburða og verkefna hefur verið mjög mikilvæg og var m.a skoðað hvort deildin ásamt Vesturafli og Starfsendurhæfingu Vestfjarða gætu starfað í sama húsnæði og samnýtt aðstöðu, sjálfboðaliða og starfsmenn. Í kynningarviku Rauða krossins var samstaða um að beina sjónum að sérstöku verkefni deildanna á norðanverðum Vestfjörðum þ.e að Efla aflið og styrkja Vesturafl. Starfsemin er mjög mikilvæg og hefur sýnt sig að full þörf er á því að halda því góða starfi áfram sem þar er unnið.

Heimsóknavinir  
Heimsóknavinir á svæðinu voru 3 á árinu en þörfin fyrir heimsóknaþjónustu hefur aukist á þessu ári og er gert ráð fyrir að fleiri sjálfboðaliðar muni heimsækja aldraða í dagdeildarþjónustu á Hlíf og á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Það er einnig hluti af sjálfboðnu starfi hjá nemendum í SJÁ- 102 við Menntaskólann á Ísafirði að taka þátt í heimsóknaþjónustu. Fleiri sjálfboðaliðar en gestgjafar eru til taks og vonandi verður hægt að bjóða fleiri einstaklingum þessa þjónustu.

RK Bandið
Sjálfboðaliðar heimsækja dvalarheimili, sjúkrahús og staði þar sem þeir syngja með eldra fólki reglulega. Einnig hefur verið sungið í Vesturafli og var það m.a gert í kynningarvikunni. Mikil ánægja hefur verið með bandið og hafa sífellt fleiri bæst í hópinn.

Harmonikkuball
Deildirnar á svæðinu styrkja verkefni í tengslum við eldri borgara í formi greiðslu vegna leigu á danssal í Edinborgarhúsinu. Samvinna deildarinnar við eldri borgara er mjög góð og hefur samstarfið verið ánægjulegt og gefandi. Sjálfboðaliðar koma einnig að verkefninu m.a með hljóðfæraleik, aðstoð við kaffiveitingar og fleira .

Sumarferð eldri borgara
Engin ferð með eldri borgurum var farin sumarið 2011 en áætlað er að bjóða upp á lengri ferð næsta sumar.  Deildirnar á svæðinu hafa skipst á að sjá um skipulag og undirbúning og er það í höndum Bolungarvíkurdeildar að sjá um ferðina í ár.

Öryggismál aldraðra
Ísafjarðardeild hefur unnið að verkefni um öryggismál aldraðra og tekin var upp kvikmynd í Bolungarvík árið 2010 sem er hluti af kennsluefni fyrir eldri borgara um öryggi, slysavarnir, skyndihjálp og sálrænan stuðning. Samvinna var við ýmsa aðila á svæðinu, félag eldri borgara, félagsþjónustu sveitarfélaga, heimahjúkrun og heimaþjónustu, sjúkraþjálfara og fleiri. Haldin voru fyrstu námskeiðin í lok ársins en þeir sem koma að fræðslu og kynningu á námskeiðunum eru leiðbeinendur í skyndihjálp og sálrænum stuðningi, slökkviliðs og sjúkraflutningamenn, iðjuþjálfi, þroskaþjálfi og sjálfboðaliðar deildarinnar. Áætlað er að námskeiðin verði ókeypis og í boði fyrir alla eldri en 65 ára á öllu svæðinu.  Þess má geta að á árinu 2011 voru 651 einstaklingar á þessum aldri skráðir í Þjóðskrá í þeim þremur sveitarfélögum (Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Súðavíkurhreppi) sem deildirnar starfa í og er takmarkið að sem flestir geti sótt þessa fræðslu.

Vinadeilarsamstarf – Gambía
Vinadeildarsamstarfi deildanna á svæðinu við deildir í North Bank í Gambíu lauk formlega á árinu 2011. Nemendur í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða og nemendur í 10 bekk í Grunnskólanum á Ísafirði tóku þátt í verkefninu ásamt sjálfboðaliðum deildanna.

Ýmsir voru í samstarfi við deildina vegna einstakra verkefna m.a:
Aðrar deildir og Landsskrifstofa.
Fjölmenningarsetur og Rætur vegna verkefna í tengslum við innflytjendur.
Vinnumálastofnun vegna atvinnulausra og einstaklinga í atvinnuleit.
Starfsendurhæfing Vestfjarða vegna einstaklinga í starfsendurhæfingarprógrammi.
Háskólasetur vegna nema í haf- og strandsvæðastjórn.
Ýmis fyrirtæki og stofnanir. Slökkvilið Ísafjarðabæjar, Dvalarheimilið Hlíf, heimahjúkrun, heimaþjónusta, félag eldri borgara, félög innflytjenda (- pólverja og taílendinga m.a)
Fjölmiðlar Skutul og BB og fleiri.

Hér hefur einungis verið sagt frá því helsta sem sjálfboðaliðar og leiðbeinendur hjá Ísafjarðardeild hafa unnið að á árinu 2011 og eru mörg spennandi verkefni sem deildin hefur unnið að og eru á áætlun á árinu 2012.
Að lokum vil ég þakka stjórnarmönnum og öllum sjálfboðaliðum og liðsaukum fyrir þeirra óeigingjarna starf. Það er ekki sjálfgefið að þeir opni heimili sin þegar góðir gestir koma í heimsókn, sjái um akstur og eldamennsku og fái ættingja og vini að láni til að hjálpa til. Það segir okkur líka hversu mikilvægir starfsmenn svæðanna eru því án þeirra geta stór verkefni sem allar deildir á svæðinu vinna að ekki gengið því alltaf er þörf á samræmingu, góðu skipulagi og samheldni þó margir sjálfboðaliðar gefi vinnu sína, tíma og peninga. Í þessu samhengi vil ég sérstaklega þakka svæðisfulltrúa, Bryndísi Friðgeirsdóttur fyrir hennar framlag og öðrum starfsmönnum landsskrifstofu fyrir mjög góða samvinnu og aðstoð.

Meðfylgjandi eru svipmyndir af starfinu 2011

f. h Ísafjarðardeildar
Hrefna R. Magnúsdóttir
formaður