Mummi og Nael frá Palestínu hitta börn á Vestfjörðum

9. mar. 2011

Rauðakrossdeildin í V.-Barðastrandarsýslu fékk til sín góða gesti í síðustu viku, þá Mohammed Nazer og Nael Rajabi frá Palestínu. Þeir eru 25 ára og hafa starfað sem sjálfboðaliðar í Rauða hálfmánanum í 12 ár í sínu heimalandi, m.a. sem sjúkraflutningamenn. 

Mummi og Nael, eins og þeir eru kallaðir, eru einnig hluti af sex manna trúðahópi sem fer um Palestínu  á vegum Rauða hálfmánans og heimsækir skóla og munaðarleysingjaheimili og skemmta börnum. Hæfileikar þeirra fengu að njóta sín á íþróttamóti sem haldið var á Tálknafirði því þeir tróðu upp sem trúðar fyrir 5.-7. bekk allra skólanna á svæðinu. Vöktu þeir mikla hrifningu og aðdáun áhorfenda.

Á miðvikudag fóru þeir í heimsókn í framhaldsdeild FSN  þar sem þeir sýndu myndir og myndbönd, kynntu nemendum land sitt og þjóð og buðu upp á spurningar og spjall. Nemendum í 8.-10. bekk Patreksskóla var einnig boðið að koma og voru nemendur mjög ánægðir með heimsókn þeirra.