Hjartahlý tombólustelpa

4. jan. 2011

Hún Sigrún Aðalheiður Aradóttir sex ára átti gleðileg jól með fjölskyldu sinni á Ísafirði. Henni var þá hugsað til allra þeirra barna sem væru svöng úti í heimi og fengu ekki jólamat, fín föt eða gjafir um þessi jól.

Hún ákvað því á milli jóla og nýjárs að halda tombólu til að safna fyrir fátæk börn úti í heimi. Hún hélt tombóluna í verslunarmiðstöðinni Neista á Ísafirði og tókst að safna 2.287 krónum sem hún færði Rauða krossinum.

Það munar mikið um þann fjárstyrk sem börn á Íslandi gefa til hjálparstarfsins. Á síðasta ári söfnuðu um 550 börn hátt í einni milljón króna. Fyrir framlagið er verið að hjálpa börnum á Haítí sem urðu fórnarlömb hamfaranna.

Sigrún Aðalheiður er fyrsta barnið á þessu ári sem afhendir Rauða krossinum pening. Hennar styrkur mun renna til barna sem eiga um sárt að binda. Í lok ársins fær hún og önnur börn sem safna fyrir Rauða krossinn sent bréf sem segir hvaða börn nutu góðsemi þeirra. Meira um safnanir barna með því að smella hér.