Allir velkomnir í hátíðarkvöldverð á Ísafirði

23. des. 2010

Rauði krossinn á Vestfjörðum verður með opið hús á aðfangadagskvöld fyrir þá sem eru einir eða vilja fá félagsskap. Safnast verður saman í athvarfinu Vesturafli upp úr klukkan 17 og hátíðarmaturinn er borinn fram klukkan 18. Vesturafl er að Mánagötu 6 á Ísafirði.

„Þetta er fyrir alla sem vilja vera í félagsskap, hvort sem þeir eru einir eða fjölskyldur sem hafa áhuga á að vera í stórum hópi,“ segir Bryndís Friðgeirsdóttir, svæðisfulltrúi Rauða krossins á Vestfjörðum.

Opna húsið er árviss liður hjá Rauða krossinum. Bryndís segir það ekki snúast um efnahag að neinu leiti og þó svo að framtakið sé liður í áhersluverkefnum félagsins að rjúfa félagslega einangrun er það ekki eingöngu ætlað þeim sem eru eingangraðir.

„Hjá sumum hafa aðstæðurnar breyst og allir ættingjarnir eru einmitt burtu þessi jólin. Aðrir vilja bara breyta til og hitta annað fólk. Hver svo sem ástæðan er þá eru allir velkomnir. Boðið verður upp á hátíðarmat, pakka og huggulegheit og fólk getur verið þarna fram eftir kvöldi eins og því sýnist.“ Opna húsið hefur verið vel heppnað undanfarin ár. „Það eru alltaf einhverjir sem þiggja boðið og eiga saman notalega stund,“ segir Bryndís.

Ef einhverjir hafa frekari spurningar er þeim bent á að hafa samband við Rauða krossinn á Ísafirði í síma 456 3180.