Ljósmyndasýningin HEIMA – HEIMAN í Edinborgarhúsinu á Ísafirði

8. okt. 2009

Ljósmyndasýningin HEIMA – HEIMAN opnar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í dag og stendur til 10. janúar. Sýningin er unnin í samvinnu við Rauða kross Íslands, Rætur – félag áhugafólks um menningarfjölbreytni og menningarmiðstöðina Edinborg. Markmið sýningarinnar er að vekja athygli á fjölmenningu á Íslandi og er þetta annar áfangastaður á ferð um landið.

Sýningin Heima – Heiman var fyrst sett upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur haustið 2008. Höfundar hennar eru þær Katrín Elvarsdóttir ljósmyndari og Sigrún Sigurðardóttir menningarfræðingur. Ágóði af sölu myndanna rennur til Rauða kross Íslands.

Á sýningunni hittum við fyrir ólíka einstaklinga sem allir eiga það sameiginlegt að hafa þurft að flýja heimkynni sín. Flestir hafa þeir þurft að yfirgefa heimaland sitt vegna stríðsátaka. Sumir hafa leitað skjóls í flóttamannabúðum – aðrir hafa flúið land úr landi – en allir eiga þeir sameiginlegt að hafa að lokum komið hingað til Íslands og búið sér hér nýtt heimili.

Heima – Heiman gefur innsýn í líf flóttamanna og hælisleitenda sem komið hafa til Íslands á síðustu árum og áratugum. Á ljósmyndum Katrínar Elvarsdóttur ganga þeir til móts við okkur. Þeir sýna okkur hverjir þeir eru - en við getum aðeins gert okkur í hugarlund hvað þeir hafa fram að færa, hvaða sögu þeir hafa að geyma. Engu að síður veita þeir okkur aðgang að tilfinningum sínum. Við skynjum brot af sögu þeirra og tilfinningum í gegnum einn einstaka hlut sem fylgt hefur þeim frá gamla heimalandinu og hingað heim.

Katrín Elvarsdóttir ljósmyndari á að baki farsælan og fjölbreyttan feril sem ljósmyndari. Hún lauk B.F.A. prófi frá Art Institute of Boston árið 1993 og hefur síðan þá haldið fjölda einkasýninga á Íslandi, í Bandaríkjunum og í Danmörku, nú síðast í Gallerí Ágúst þar sem sýning hennar Margsaga opnaði í ágúst síðastliðnum. Katrín er einn af stofnfélögum í Félagi íslenskra samtímaljósmyndara.

Sigrún Sigurðardóttir er menningarfræðingur og hefur sérhæft sig í rannsóknum á ljósmyndum og þýðingu þeirra fyrir upplifun og skilning fólks á veruleikanum í fortíð og nútíð. Sigrún vinnur nú að ljósmyndarannsókn á Þjóðminjasafninu auk þess sem hún kennir við Listaháskóla Íslands.

Nánari upplýsingar um sýninguna á Ísafirði veitir Bryndís Friðgeirsdóttir hjá svæðisdeild Rauða kross Íslands á Vestfjörðum: vestfirdir@redcross.is