Leikskólarnir fá heimsókn frá Rauða krossinum

5. jan. 2009

Deildir Rauða krossins eru um þessar mundir að heimsækja leikskólana í landinu færandi hendi með Hjálpfús DVD diskinn og fræðsluefni um tilfinningar að gjöf.

Hrefna Magnúsdóttir formaður Ísafjarðardeildar og Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi fóru á leikskólana Bakkaskjól og Sólborg. Báðir leikskólarnir hafa unnið með fræðsluefnið Hjálpfús heimsækir leikskólann svo það var kærkomið að fá viðbótarkaflann og myndbandið.

Samstarf  Rauða krossins við leikskólana hófst árið 2004 þegar út kom fræðslupakkinn um Rauða kross strákinn Hjálpfús. Þar er Hjálpfús í formi fingurbrúðu og tekur á ýmsum málefnum sem túlkuð eru með hjálp leikskólakennarans. Rauði krossinn bætir nú við efni í fræðslupakkann þar sem reynt er að ná til barna um þá erfiðu stöðu sem mörg heimili finna fyrir um þessar mundir.

Mynddiskurinn um Hjálpfús kom út í desember í samstarfi Rauða krossins og Útgáfufélagsins Senu. Á disknum eru 14 þættir sem teknir voru upp í Sjónvarpinu og sýndir í Stundinni okkar síðustu tvö ár.