Fréttir úr starfinu á Vestfjörðum

15. des. 2004

Bolungarvík er með opið hús fyrsta laugardag hvers mánaðar.  Þá er stjórnarfólk úr deildinni tilbúið til að taka á móti fólki sem vill fræðast um starfið.  Þenna dag er einnig tekið á móti fötum en þess utan getur fólk komið með föt á svæðisskrifstofuna á Ísafirði alla daga vikunnar.

Þann 30. október sl var haldið Kúbukvöld í samvinnu við Fjölmenningarsetur á Vestfjörðum og Menningarmiðstöðina Edinborg.  Þjóðakvöld er árlegur viðburður sem nýtur mikilla vinsælda.  Fólk af ýmsum þjóðernum sem býr á svæðinu er ávallt tilbúið til að miðla af þekkingu sinni og reynslu sem það tekur með sér frá heimalandi sínu.  Íbúar á vestfjörðum kunna vel að meta þessi þjóðakvöld enda er oft fullt út úr dyrum.  Fyrir utan þjóðlegan fróðleik eru  það einkum matföng og tónlist sem lokkar og laðar.

Í grunnskólanum á Þingeyri fá nemendur í 10. bekk kennslu í almennri skyndihjálp.  Dýrafjarðardeild hefur undanfarin tvö ár styrkt verkefnið og hefur sett það á 4 ára áætlun deildarinnar.

Fatasöfnun eykst jafnt og þétt á  Vestfjörðum.  Fólk kemur með föt á svæðisskrifstofuna  alla virka daga auk þess sem deildir taka á móti fötum.  Áður voru föt flokkuð á svæðisskrifstofunni og þeim deilt út þaðan en nú hefur því verið hætt og öll föt send til fataflokkunar í Reykjavík.  Fólk getur samt áfram haft samband við svæðisskrifstofuna eða deildir og óskað eftir að fá föt í ákveðnum stærðum og fær þau síðan send frá fataflokkun í Raykjavík.  Á þennan hátt er minni hætta á að fólk hitti einhvern í fötunum sem það hafur gefið.  Þessi samvinna hefur gefist vel enda er sífellt að aukast að fólk á svæðinu leiti eftir þessari aðstoð.