Gaman að fræðast um mannúð og menningu

24. jún. 2013

Rauðakrossdeildirnar á norðanverðum Vestfjörðum halda námskeiðið Mannúð og menning/gleðidagar í lok júnímánaðar og fer það fram í Barnaskólanum í Hnífsdal. Hrefna Magnúsdóttir hjá Ísafjarðardeild Rauða krossins segir að í fyrra hafi færri komist að en vildu.

„Það var frábær þátttaka síðast og krakkarnir voru ofsalega ánægðir með viðfangsefni námskeiðsins, en það eru fyrst og fremst hugsjónir Rauða krossins, mannúðarmál og umhverfismál. Þeim þótti þetta mjög skemmtilegt,“ segir Hrefna.

Á námskeiðinu er lögð áhersla á fræðslu og leiki í tengslum við hugsjónir Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni. Börnin fá einnig innsýn í skyndihjálp, fjölmenningu og umhverfisvernd. Eldri borgarar koma í heimsókn og farið verður í útileiki og vettvangsferðir.

Í þetta sinn er boðið upp á tvö tímabil, frá 24.júní til 28. júní og frá 1. júlí til 5. júlí, í báðum tilvikum frá kl. 10 til 16. Umsjónarmaður námskeiðsins er Margrét Heiða Magnúsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.

Hægt er að skrá þátttakendur á vefsíðu Rauða krossins, með því að senda tölvupóst á [email protected] eða hringja í síma 864 6754.

Fréttin er tekin af vef BB.is