Kampi á Ísafirði gaf 700 þúsund krónur í hjálparstarf á Filippseyjum

28. nóv. 2013

Rækjuvinnslan Kampi ehf. færði Rauða krossinum á Ísafirði 700 þúsund króna framlag til hjálparstarfa samtakanna á Filippseyjum. Fjölmargir starfsmenn rækjuvinnslunnar eiga ættir sínar að rekja til Filippseyja, og hafa þeir að vonum haft áhyggjur af afdrifum vina og ættingja sem búa á hamfarasvæðinu.

Eigendur Kampa vildu með þessu rausnarlega framlagi heiðra starfsfólk sitt og aðra íbúa Vestfjarða sem koma frá Filippseyjum. Fyrirtækið er vant að veita styrk í sinni heimabyggð fyrir jólin, en eigendurnir sögðust ekki getað horft framhjá þeirri miklu neyð sem nú ríkir á Filippseyjum og því hafi þessi ákvörðun verið tekin.  Rauði krossinn hafi orðið fyrir valinu að vel athuguðu máli og í samráði við starfsfólkið.

Tveir Íslendingar starfa nú á Filippseyjum, Orri Gunnarsson verkfræðingur sem vinnur með heilsugæslusveit Rauða krossins á Samareyjum, og Karl Júlísson, öryggismálafulltrúi Alþjóða Rauða krossins, en hans hlutverk er að tryggja öryggi skjólstæðinga og hjálparstarfsmanna meðan á neyðaraðgerðum stendur.  Þriðji sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi heldur svo til Filippseyja á morgun, Alaksandar Knezevic rafvirki sem mun starfa sem tæknimaður á tjaldsjúkrahúsi.

Rauði krossinn á Íslandi hefur þegar sent 10 milljónir króna til hjálparstarfsins á hamfarasvæðunum. Rauði krossinn á Filippseyjum hefur unnið þrekvirki á þeim tæpu þremur vikum sem liðnar eru frá því að fellibylurinn reið yfir. Hjálpargögnum hefur verið dreift til tugþúsunda fjölskyldna, gert hefur verið við vatnsveitur og íbúum tryggður aðgangur að hreinu vatni, og komið hefur verið tímabundnu skjóli yfir þá sem hafa misst heimili sín. Tjaldsjúkrahús Rauða kross hreyfingarinnar hafa verið reist víða á hamfarasvæðunum og sinna tugþúsundum manna.