Veittu sjálfboðaliðum viðurkenningu

12. des. 2013

Rauði krossinn á Ísafirði veitti sjálfboðaliðum viðurkenningu fyrir vel unnin störf á degi sjálfboðaliðans sem haldinn er um allan heim 5. desember ár hvert. Sjálfboðaliðarnir vinna ýmis störf fyrir félagið og að þessu sinni var fólk sem vinnur í fatasöfnun sérstaklega heiðrað. Að sögn Hrefnu Magnúsdóttur formanns Rauða krossins á Ísafirði er fatasöfnunin umfangsmikil um allt land og hver einasta flík og vefnaðarvara sem berst til félagsins nýtt í þágu mannúðar.

Sjálfboðaliðarnir vinna meðal annars við að taka á móti fötum og annarri vefnaðarvöru sem berst í fatagámana í Vestrahúsinu á Ísafirði og ýmis verkefni tengd nytjamarkaði sem geðræktarmiðstöðin Vesturafl rekur í verslunarhúsinu á Skeiði. Allir munir sem berast á nytjamarkaðinn nýtast í starfsemi Vesturafls og koma margir sjálfboðaliðar að þeirri vinnu. „Til dæmis starfsfólkið í áhaldahúsi Ísafjarðarbæjar og á Byggðasafninu að ógleymdu starfsfólkinu í afgreiðslunni á heilsugæslunni.“

„Það er mikilvægt að hafa hraust fólk á góðum bílum þegar flutningar fara fram á húsgögnum upp og niður stigana á markaðinum. Svo má nefna verkefnið Föt sem framlag sem unnið er í Vesturafli en þar vinna sjálfboðaliðar við að sauma, prjóna og pakka fötum í sérstaka ungbarnapakka sem fara til Hvíta Rússlands,“ Hrefna segir afar mikilvægt að hafa nægan fjölda sjálfboðaliða sem koma að fatasöfnuninni. „Það eru mörg bretti á mánuði sem hann Ólafur Jens Guðmundsson sjálfboðaliði plastar og gengur frá. Síðan taka sjálfboðaliðarnir hjá Eimskip við og flytja allt saman á rétta staði.“