Yfir 80 manns í fjöldahjálparstöð á Hólmavík

10. feb. 2015Rauði krossinn í Strandasýslu opnaði fjöldahjálparstöð á Hólmavík kl. 10 í gær og tók á móti yfir 80 manns sem dvöldu í stöðinni í 12 klukkustundir. Um var að ræða 60 nemendur úr Fjölbrautarskólanum á Sauðárkróki sem voru að koma frá Ísafirði. 

Nemendurnir höfðu hafist við í rútu nóttina áður þar sem vegurinn fremst í Staðardal fyrir norðan Hólmavík hafði farið í sundur. 

Hlíf Hrólfsdóttir formaður Rauða krossins í Strandasýslu tók á móti fólkinu ásamt sjálfboðaliðum Rauða krossins og fleira fólki sem kom til aðstoðar. Boðið var upp á aðstöðu til að hvílast og heitan mat.

Hlíf sagði að stuttu síðar hefði fleira fólk komið í  stöðina þar sem vegurinn hafði einnig farið í sundur við Skeljavík. Þar á meðal voru 19 grunnskólastúlkur ásamt fararstjórum, kennurum og foreldrum sem gengu eftir hlíðinni til Hólmavíkur og komust í skjól hjá Rauða krossinum ásamt þriggja manna fjölskyldu. Stelpurnar voru að koma af körfuboltamóti á höfuðborgarsvæðinu. 

Það voru því yfir 80 manns sem fengu mat og húsaskjól í fjöldahjálparstöð Rauða krossins sem staðsett er í félagsheimilinu á Hólmavík.