Svæðisfundur deilda á Vestfjörðum

27. sep. 2006

Laugardaginn 23. september héldu Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum sinn árlega  svæðisfund í húsnæði Bolungarvíkurdeildar. Á fundinn mættu ásamt stjórnarfólki úr deildum á Vestfjörðum þeir Ómar Kristmundsson formaður, Kristján Sturluson framkvæmdastjóri og Konráð Kristjánsson verkefnisstjóri félagsins.

Áður en gengið var til hefðbundinnar dagskrár svæðisfundar var stjórnarfólki boðið að sitja deildanámskeið þar sem þátttakendur fengu fræðslu um störf og stefnu félagsins.

Á svæðisfundinum kynnti Kristján Sturluson niðurstöður könnunar sem Rauði krossinn gerði „Hvar þrengir að ?” Að því loknu skiptu fundarmenn sér upp í hópa og ræddu spurninguna „hvar þrengir að ?” á svæði okkar deilda. 

Í  framhaldi af niðurstöðu vinnuhópanna var ákveðið að standa fyrir málþingi þar sem niðurstöður könnunarinnar verða kynntar almenningi á Vestfjörðum og fagaðilar sérstaklega hvattir til þátttöku. Einnig var samþykkt að standa fyrir námskeiði fyrir fólk sem gæti hugsað sér að taka að sér að vera vinafjölskyldur útlendinga sem flytjast til svæðisins í svipuðum anda og gert var við móttöku flóttamanna.

Ómar Kristmundsson kynnti fyrir fundarmönnum endurskoðun stefnu félagsins samkvæmt samþykktum aðalfundar og sagði frá samsetningu vinnuhóps sem mun vinna að endurskoðuninni. Hann hvatti menn til dáða í þeim verkefnum sem unnið er að eftir hugsjónum Rauða krossins. Á fundinum var síðan lögð fram til umræðu og samþykktar fjárhags- og framkvæmdaáætlun svæðisins.