Líflegt fræðslustarf á Vestfjörðum

16. maí 2006

Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi talar við börnin í 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði.
Nemendur og kennarar í 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði heimsóttu svæðisskrifstofu Rauða krossins á Vestfjörðum á mánudaginn. Þau voru frædd um starf Rauða krossins og tóku með sér fræðslubæklinga sem þau ætla að nota til að kynna starfið fyrir fjölskyldu og vinum. 

?Heimsókn 10. bekkjar er orðinn fastur liður á vorin. Það er gaman að hitta krakkana og oftast skapast líflegar umræður,? segir Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi.

?Það er einnig ánægjulegt að á hverju ári koma börnin á leikskólanum í heimsókn. Að þessu sinni var heimsóknin tengd við námsefnið ?Hjálpfús heimsækir leikskólann,? námsefni sem Rauði krossinn sendi öllum leikskólum að gjöf, en börnin hafa verið að læra það í vetur,? segir Bryndís.

Menntaskólinn á Ísafirði fær líka sína árlegu kynningu. Sjálfboðaliðar fara í skólann með fræðslu fyrir nemendur og starfsfólk sem haldin er á sal skólans.

Á skólavef Rauða krossins; www.redcross.is/skoli er að finna fjölbreytt námsefni sem gefið hefur verið út hjá félaginu. Grundvallarmarkmið Rauða krossins um mannúð án manngreinarálits er undirstaða kennsluefnisins.